Enski boltinn

Bruce rekinn frá Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Bruce er ekki lengur knattspyrnustjóri Newcastle.
Steve Bruce er ekki lengur knattspyrnustjóri Newcastle. getty/Robbie Jay Barratt

Steve Bruce er hættur sem knattspyrnustjóri Newcastle United. Þetta staðfesti félagið í morgun.

Þessar fréttir koma eflaust fáum á óvart enda var búist við því að nýir eigendur Newcastle myndu skipta um stjóra. Í yfirlýsingu frá Newcastle kemur fram að Bruce og forráðamenn Newcastle hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hann myndi hætta hjá félaginu.

Bruce stýrði Newcastle í síðasta sinn á sunnudaginn þegar liðið tapaði, 2-3, fyrir Tottenham á heimavelli. Það var jafnframt þúsundasti leikur hans á stjóraferlinum.

Bruce tók við Newcastle sumarið 2019 og stýrði liðinu í rúm tvö ár. Newcastle endaði í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á fyrsta tímabili Bruce við stjórnvölinn. Á síðasta tímabili enduðu Newcastle-menn í 12. sæti.

Newcastle hefur ekki enn unnið leik á þessu tímabili og er með þrjú stig í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Greame Jones tekur við Newcastle til bráðabirgða og stýrir liðinu gegn Crystal Palace á laugardaginn.

Fjölmargir hafa verið orðaðir við stjórastarfið hjá Newcastle að undanförnu. Má þar meðal annars nefna Steven Gerrard, Lucien Favre, Paulo Fonseca, Brendan Rodgers og Eddie Howe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×