Liverpool lék sér að sögulega slöku liði Man Utd

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Saga leiksins.
Saga leiksins. vísir/Getty

Liverpool lék sér að erkifjendum sínum í Manchester United þegar liðin áttust við á Old Trafford í Manchester í dag í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Heimamenn fengu reyndar kjörið tækifæri til að komast í forystu strax á 3.mínútu þegar Bruno Fernandes slapp einn í gegn. Portúgalinn sparkvissi fór hins vegar afar illa að ráði sínu og setti boltann framhjá markinu.

Í kjölfarið tók við einhver versta frammistaða sem sést hefur frá Manchester United á seinni árum og óhætt að segja að Liverpool hafi nýtt sér það til hins ítrasta í uppgjöri þessarra sigursælustu liða enska fótboltans.

Á 5.mínútu opnaði Naby Keita markareikninginn fyrir gestina þegar hann komst einn gegn David De Gea og lagði boltann í netið. Eftir tæplega fimmtán mínútna leik tvöfaldaði Diogo Jota forystuna. Kom markið í kjölfar ótrúlegra mistaka Harry Maguire og Luke Shaw í vörn heimamanna.

Veislan var rétt að byrja fyrir gestina því Egyptinn óstöðvandi, Mohamed Salah, bætti við tveimur mörkum áður en flautað var til leikhlés. Staðan í hálfleik því 0-4, Liverpool í vil. Úrslitin ráðin og í fyrsta skiptið í sögu úrvalsdeildarinnar sem Man Utd er fjórum mörkum undir í leikhléi.

Hlutirnir áttu bara eftir að verða verri fyrir Ole Gunnar Solskjær og lærisveina hans í síðari hálfleik því strax á 50.mínútu innsiglaði Salah þrennu sína og kom Liverpool í 0-5.

Cristiano Ronaldo minnti á sig og skoraði laglegt mark skömmu síðar sem var dæmt af vegna rangstöðu eftir að atvikið hafði verið skoðað í VAR.

Paul Pogba var skipt inná í leikhléi en hann fékk að líta rauða spjaldið eftir klukkutíma leik fyrir tæklingu á Naby Keita.

Síðasti hálftími leiksins var líklega ekki það sem áhorfendur bjuggust við að sjá í leik þessara erkifjenda en þar sem heimamenn voru gjörsigraðir nýttu gestirnir lokakaflann til þess að hvílast fyrir komandi átök og lítið sem gerðist í leiknum. 

Lokatölur 0-5 fyrir Liverpool í einum ótrúlegasta leik seinni ára í ensku úrvalsdeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira