Enski boltinn

Mjög líklegt að Solskjær stýri United gegn Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Líklegra en ekki er að Ole Gunnar Solskjær stýri Manchester United gegn Tottenham á laugardaginn.
Líklegra en ekki er að Ole Gunnar Solskjær stýri Manchester United gegn Tottenham á laugardaginn. getty/Matthew Peters

Ole Gunnar Solskjær verður áfram knattspyrnustjóri Manchester United, allavega um sinn, og stýrir liðinu gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Leikmenn United hafa þó margir hverjir misst trúna á honum.

Solskjær er undir gríðarlega mikilli pressu eftir 0-5 tap fyrir Liverpool á Old Trafford í fyrradag. United hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er í 7. sæti hennar.

Þrátt fyrir það er mjög líklegt að Solskjær verði áfram við stjórnvölinn þegar United sækir Tottenham heim á laugardaginn samkvæmt heimildum The Athletic.

Æðstu prestar hjá United funduðu í gær og hafa ákveðið að halda tryggð við Solskjær, allavega fram yfir leikinn gegn Tottenham.

Í grein The Athletic kemur fram að Solskjær sé ekki lengur með alla leikmenn United á sínu bandi og þeir séu orðnir þreyttir á taktísku ráðaleysi hans. Ástandið er þó ekki jafn slæmt og þegar José Mourinho var rekinn fyrir tæpum þremur árum.

Leikmenn United fengu frí í gær en mæta aftur á æfingasvæðið í dag. Þar verður væntanlega farið vel yfir leikinn skelfilega gegn Liverpool.

Antonio Conte ku hafa áhuga á stjórastarfinu hjá United og í gær var greint frá því að félagið hefði sett sig í samband við hann. Conte er án starfs eftir að hafa hætt hjá Inter eftir síðasta tímabil.

Conte vill venjulega ekki taka við liði á miðju tímabili en er tilbúinn að gera undirtekningu í tilfelli United. Hann þekkir vel til á Englandi eftir að hafa stýrt Chelsea á árunum 2016-18. Undir hans stjórn varð liðið bæði Englands- og bikarmeistari.


Tengdar fréttir

Neville heldur að Solskjær verði ekki rekinn

Pressan á Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, eftir tapið stóra fyrir Liverpool verður óbærileg segir Gary Neville. Þrátt fyrir það telur hann að Solskjær verði áfram við stjórnvölinn hjá United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×