Chelsea keyrði yfir Newcastle í seinni hálfleik og heldur toppsætinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Reece James skoraði fyrri tvö mörk Chelsea í dag.
Reece James skoraði fyrri tvö mörk Chelsea í dag. Ian MacNicol/Getty Images

Topplið Chelsea vann góðan 3-0 sigur er liðið heimsótti Newcastle í tíundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Öll mörkin voru skoruð á seinustu 25 mínútum leiksins.

Gestirnir í Chelsea voru líklegri aðilinn í fyrri hálfleik, en náðu þó ekki að brjóta vörn heimamanna á bak aftur og því var markalaust þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var orðinn tuttugu mínútna gamall þegar loksins dró til tíðinda. Callum Hudson-Odoi átti þá fyrirgjöf sem Matt Ritchie mistókst að hreinsa frá. Reece James var fyrstur að átta sig og kom boltanum í netið fyrir Chelsea.

Á 77. mínútu átti Ruben Loftus-Cheek skot í varnarmann og boltinn féll fyrir áðurnefndan Reece James sem skoraði sitt annað mark, og annað mark Chelsea.

Tveimur mínútum síðarvar leik lokið þegar Karl Darlow braut á Kai Havertz innan vítateigs. Jorginho fór á punktinn og sendi Darlow í rangt horn.

Niðurstaðan varð því 3-0 sigur Chelsea og liðið er því enn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig eftir tíu umferðir. Newcastle sitja hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira