„Það er náttúrulega persónulegt sjokk þegar þú lítur framan í æskuvin þinn og áttar þig á því að hann er orðinn miðaldra karl“ - Guðmundur Ingi
spurður um efnistökin í laginu Bognum ekki í bráð og myndbandinu við lagið segir Guðmundur:
„Ég held að flestum yfir höfuð líði alltaf eins og þau séu 27 ára.“ … „það var í alvöru þannig að mamma og pabbi, sem eru kúabændur og fara þess vegna lítið af bæ, komu og gistu hjá okkur eina nótt í Vesturbænum. Sonur minn vildi ólmur fara með þau á hvalasafnið, búinn að fara margoft og algerlega heillaður af því á þeim tíma. Og bara þar sem ég stend þarna á safninum og horfi á son minn leiða mömmu og pabba og skoða þessar afsteypur af þessum risavöxnu dýrum kom þessi tilfinning yfir mig um hvað manneskjan er lítil, lífið stutt, mamma og pabbi að eldast, og ég hálfnaður með lífið sem er dropi í tímans haf. Þar varð þetta lag í raun til.“
Myndbandið við lagið er einkar glæsilegt en það er Tryggvi Már Gunnarsson gítarleikari hljómsveitarinnar sem klippti myndbandið.
„Tryggvi er magnað eintak. Það eru ekkert mjög mörg ár síðan hann fékk áhuga á ljósmyndum, en eins og annað sem hann tekur sér fyrir hendur af áhuga var hann fljótur að verða góður í því. Hann hefur mikin áhuga á myndbandsgerð og þetta er annað myndbandið sem hann gerir fyrir okkur. Við vildum gera hrátt green screen myndband, sem sýnir fjölbreytileika sjálfsins, fegurð þess að vera miðaldra og sögu bandsins. Við í Tvö dónaleg haust hættum aldrei.” - Guðmundur Ingi
Tvö dónaleg haust er svo miklu meira en hljómsveit. Hún er ferðalag vina, eiginkvenna og fjölskyldna í gegnum lífið. Meðlimir sveitarinnar hafa verið bestu vinir í 31 ár og eru ekkert á leiðinni að hætta því.
„Við spiluðum í fyrsta skipti læf eftir að þessi plata kom út fyrir ári síðan, á Eyrarrokki á Akureyri um síðustu helgi. Það var einfaldlega stórkostlegt að spila loksins fyrir fólk og við getum ekki beðið eftir að eiga góða kvöldstund í Máli og Menningu á mánudaginn næstkomandi. - Guðmundur Ingi
Tvö dónaleg haust munu halda útgáfutónleika í Húsi Máls og Menningar að Laugavegi 18, mánudaginn 1. nóvember kl 20:00.
Þessi grein birtist fyrst á Albumm.is. Albumm var stofnaður árið 2014 og fjallar um íslenska tónlist og menningu frá öllum hliðum. Hægt er að hafa samband í albumm@albumm.is.