Erlent

Lög­regla drap 25 meinta banka­ræningja

Árni Sæberg skrifar
Lögregla í brasilíska fylkinu Minas Gerais felldi 25 meinta bankaræningja í morgun.
Lögregla í brasilíska fylkinu Minas Gerais felldi 25 meinta bankaræningja í morgun. Getty Images

Lögreglan í Brasilíu felldi 25 fimm meinta bankaræningja í aðgerð sem sögð er fara í sögubækurnar. 

Yfirvöld í Brasilíu hafa sagt að aðgerðum lögreglu hafi verið beint gegn alræmdu gengi þungvopnaðra bankaræningja sem haldið hafa heilu borgunum í heljargreipum.

Að sögn The Guardian voru hinir meintu bankaræningjar skotnir til bana snemma í morgun í fylkinu Minas Gerais. Lögregluyfirvöld segja að ræningjarnir hafi verið að undirbúa enn eitt bankaránið þegar lögreglu bar að garði. 

„Þessi lögregluaðgerð verður skráð í sögubækurnar,“ segir Rogério Greco, öryggismálaráðherra Minas Gerais.

Alríkislögreglan í Brasilíu hefur gefið út að bófagengið hafi búið yfir virðulegu vopnabúri sem myndi sæma herliði.

„Ég get sagt ykkur að þetta er stærsta aðgerð sögunnar gegn nútíma cangaço,“ segir Layla Brunella, talskona lögreglunnar í Minas Gerais, og vísar til alræmds útlagagengis sem herjaði á Norður-Brasilíu í byrjun síðustu aldar.

Gengi í anda „cangaço“ eru talin ábyrg fyrir röð bankarána í stórum borgum í suður- og suðausturhluta Brasilíu undanfarin misseri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×