Reglunum virðist hafa verið breytt án þess að tilkynnt væri um stefnubreytinguna en það vakti mikla athygli í sumar þegar Handknattleikssamband Evrópu sektaði landslið Noregs fyrir að klæðast stuttbuxum á Evrópumótinu í Búlgaríu.
Sambandið sagði stuttbuxur kvennanna „óviðeigandi“.
Málið fékk meiri umfjöllun en vænta mátti eftir að tónlistarkonan Pink gaf út stuðningsyfirlýsingu til handa norska liðinu og bauðst til að greiða þær sektir sem til féllu.
Abid Raja, íþróttamálaráðherra Noregs, sagði ákvörðun sambandsins gjörsamlega út í hött og þá undirrituðu íþróttamálaráðherrar Norðurlandanna fimm; Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, bréf til Alþjóðlega handknattleikssambandsins í síðasta mánuði þar sem sambandið var hvatt til að breyta reglunum.
Það vekur athygli að þrátt fyrir að konum sé nú heimilað að klæðast stuttbuxum og hlýrabol er sérstaklega tekið fram að buxurnar eigi að falla þétt að líkamanum, það er að segja vera þröngar. Þessi krafa er ekki gerð um buxur karlanna, sem mega bara ekki vera „of víðar“.