Enski boltinn

Útlit fyrir að Newcastle kaupi stjóra sem entist stutt síðast á Englandi

Sindri Sverrisson skrifar
Unai Emery hefur gert það gott hjá Villarreal sem vann Evrópudeildina undir hans stjórn í vor.
Unai Emery hefur gert það gott hjá Villarreal sem vann Evrópudeildina undir hans stjórn í vor. Getty/Xisco Navarro Pardo

Tveir knattspyrnustjórar koma til greina í starfið hjá nýjum eigendum Newcastle og mestar líkur eru á því að Unai Emery, fyrrverandi stjóri Arsenal, taki við liðinu.

Frá þessu greinir The Athletic og segir að forráðamenn Newcastle vinni nú í því að klára að gera samning við Emery. Annar kostur sé Eddie Howe sem hefur verið án starfs síðan að hann hætti með Bournemouth vorið 2020.

Emery er í dag stjóri Villarreal á Spáni en hann stýrði áður Arsenal í eitt og hálft ár, eða þar til að hann var rekinn í nóvember 2019. Þar áður var þessi 49 ára gamli Spánverji stjóri PSG í Frakklandi og enn áður stjóri Sevilla.

Emery vann franska meistaratitilinn með PSG 2018 en hefur aðallega sérhæft sig, ef svo má segja, í Evrópudeildinni þar sem hann hefur náð einstökum árangri. Undir stjórn Emerys vann Sevilla keppnina þrjú ár í röð, Arsenal komst í úrslitaleikinn 2019 og Villarreal vann keppnina í vor.

Talið er að Newcastle þyrfti að greiða Villarreal um sex milljónir evra í bætur fyrir að fá Emery sem er með samning við spænska félagið til 2023. Samkvæmt The Athletic er spurningin hins vegar aðeins hvort að Newcastle sé reiðubúið að greiða Emery þau laun sem hann fer fram á.

Newcastle hefur verið í stjóraleit eftir að Steve Bruce var rekinn í október. Eitt fyrsta verk nýrra eigenda félagsins frá Sádi-Arabíu var að láta Bruce fara. Graeme Jones stýrir liðinu til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×