Enski boltinn

Segir Pogba þurfa barnapössun þar til hann verði 35 ára

Sindri Sverrisson skrifar
Paul Pogba í baráttu um boltann í leiknum við Atalanta í gær.
Paul Pogba í baráttu um boltann í leiknum við Atalanta í gær. AP/Luca Bruno

Paul Scholes gagnrýndi nafna sinn og fyrrverandi samherja, Paul Pogba, harðlega eftir slaka frammistöðu Frakkans leik Manchester United við Atalanta á Ítalíu í gærkvöld. Liðin gerðu 2-2 jafntefli í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Pogba kom inn á sem varamaður í 5-0 tapinu gegn Liverpool á dögunum og fékk rautt spjald. Hann náði svo engum takti við leikinn á Ítalíu í gær og var skipt af velli á 69. mínútu, þegar United var 2-1 undir.

„Það þarf einhver að fylgjast með Pogba allan tímann. Einhver sem hann virðir algjörlega. Hann þarf að hafa reynslumikla menn við hlið sér,“ sagði Scholes, samkvæmt Daily Mail, í sjónvarpsumræðum eftir leik.

„Hvað er hann gamall? 28? Hann er mjög reynslumikill leikmaður. En hann er líka einn af þeim sem verður enn nákvæmlega eins þegar hann verður 35 ára.

Hann verður enn að gera þessa heimskulegu hluti þegar hann rúllar boltanum með tökkunum, heldur mönnum frá sér og vill sýna hversu sterkur og hæfileikaríkur hann er,“ sagði Scholes sem telur að Pogba hafi notið sín mun betur innan um reynslumikla leikmenn Juventus þegar hann lék þar.

„Aðalvandamálið með Paul er einbeitingin. Hann svífur stundum inn í draumaland.

Manni verður hugsað til Juventus-liðsins sem hann var í, þar sem hann var stórkostlegur og þess vegna keyptum við hann. 

Reynslan í kringum hann; Pirlo, Chiellini, Bonucci, Buffon og harður knattspyrnustjóri... Hann mun þurfa slíka meðferð þar til hann verður 35 ára,“ sagði Scholes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×