Hámarkshraði á kaflanum verður þó fyrst um sinn takmarkaður við 50 kílómetra hraða á klukkustund, bæði vegna hættu á grjótkasti á nýlagðri klæðningu og einnig vegna þess að eftir er að setja upp vegrið og vegstikur, að sögn Guðmundar Óla Kristins Lyngmos, eftirlitsmanns Vegagerðarinnar á Ísafirði. Vonast hann til að stikurnar komi í næstu viku og vegriðið í kringum 20. nóvember. Menn geta þó áfram valið að aka gamla veginn.
Opnun nýja vegarins þýðir að núna vantar aðeins einn kílómetra upp á að leiðin milli Ísafjarðar og Dynjanda verði öll orðin malbikuð. Næst fossinum verða vegfarendur áfram að aka eftir gömlum malarkafla. Bundið slitlag er komið á 58 kílómetra af 59, eftir að leiðin styttist um 27 kílómetra með opnun Dýrafjarðarganga í fyrra.
Suðurverk annaðist stóran hluta vegagerðarinnar í Arnarfirði sem undirverktaki Íslenskra aðalverktaka. Borgarverk lagði svo klæðninguna í síðustu viku. Aðeins tíu mánuðir eru frá því verkið hófst, sem var í janúar.
Í Pennusneiðingi ofan Flókalundar vinna starfsmenn ÍAV í kappi við aðvífandi vetur að búa 3,5 kílómetra kafla undir klæðningu. Verið er að leggja efsta malarlagið út og gert ráð fyrir að það verði heflað á laugardag. Þar horfa menn núna stíft á veðurspána næstu daga og vonast til að fá tvo til þrjá frostlausa daga og ekki of blauta eftir helgi svo að hægt verði að leggja út slitlagið, að sögn Guðmundar Óla.
Þar er þegar búið að setja upp vegrið og er stefnt að því að nýi kaflinn verði opnaður umferð fljótlega, hvort sem það næst að leggja slitlagið á eða ekki. Alls yrði um 6,5 kílómetra langur kafli opnaður, að gatnamótum Bíldudalsvegar.
Hér má sjá frétt sem Stöð 2 sýndi um vegagerðina í september:
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í síðustu viku um framhald verksins á Dynjandisheiði: