Erlent

Rómantískir Rússar minnast byltingarinnar á Rauða torginu

Heimir Már Pétursson skrifar
Víða mátti sjá myndir af Lenín og Stalín, sem göngufólk hélt á lofti.
Víða mátti sjá myndir af Lenín og Stalín, sem göngufólk hélt á lofti. AP/Pavel Golovkin

Rússneskir kommúnistar fylktu liði á Rauða torginu í Moskvu í dag til að minnast þess að 104 ár eru liðin frá októberbyltignunni svo kölluðu árið 1917.

Rússneski Kommúnistaflokkurinn hefur verið áhrifalítill frá því Sovétríkin liðu undir lok á annan dag jóla árið 1991 en þangað til þá höfðu Bolsevikkar stjórnað Rússlandi og öðrum ríkjum Sovétríkjanna að lokinni borgarastyrjöld í 74 ár.

Upphafsdag októberbyltingarinnar ber reyndar upp á 7. nóvember samkvæmt vestrænu tímatali en þennan dag rændu bolsvikkar völdum af þingræðisstjórn sem steypti Nikulási II Rússlandskeisara í febrúar það sama ár.

Margir Rússar horfa með söknuði til Sovétríkjanna eftir þrjátíu ára þrengingar almennings frá falli þeirra. Í dag bar göngufólk borða, sovéska fánann og myndir af Lenin og Stalin.

Gennady Zyuganov leiðtogi Kommúnistaflokksins lagði blómsveig að grafhýsi Leníns og fólk leit smurðan líkama föðurs byltingarinnar augum í grafhýsinu á Rauða torginu.

Gennady Zyuganov (fyrir miðju) er leiðtogi Kommúnistaflokksins.AP/Pavel Golovkin

Gangan var farin þrátt fyrir samkomutakmarkanir vegna Covid-19 en 7. nóvember er almennur frídagur í Rússlandi.

„Þetta er hátíðisdagur vinnandi fólks. Þetta er hátíðisdagur okkar mikla ríkis. Þetta er hátíðisdagur framrásar til nýs heims og framtíðar. Á meðan við erum trú þessum hátíðisdegi munum við á nokkurs vafa vinna nýja sigra, gera nýjar uppgötvanir og vinna ný afrek úti í geimnum. Gleðilega hátíð,“ sagði Zyuganov í ávarpi til göngufólks í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×