Enski boltinn

Gerrard sagður áhugasamur um stjórastöðu Aston Villa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Steven Gerrard er sagður áhugasamur um að taka við stjórnartaumunum hjá Aston Villa.
Steven Gerrard er sagður áhugasamur um að taka við stjórnartaumunum hjá Aston Villa. Ian MacNicol/Getty Images

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri skoska liðsins Rangers og fyrrverandi leikmaður Liverpool, er sagður áhugasamur um að taka við sem næsti knattspyrnustjóri Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni.

Samkvæmt heimildum The Telegraph hafa forráðamenn Aston Villa verið að skoða Gerrard og starfslið hans eftir að liðið lét Dean Smith fara á dögunum. Þá herma heimildir þeirra einnig að Gerrard sé tilbúinn að ræða við félagið ef hann fær leyfi frá núverandi vinnuveitendum sínum.

Gerrard er samningsbundinn Rangers til ársins 2024, en hann er sagður vera efstur á óskalista Villa. Metnaðarfullir eigendur liðsins vilja fá stórt nafn í stjórastöðuna og þeir sjá fyrir sér að fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins passi vel inn í framtíðaráætlun klúbbsins.

Framkvæmdarstjóri Aston Villa, Christian Purslow, ræddi við leikmenn liðsins sem ekki voru farnir í landsliðsverkefni á mánudaginn og sagði að nýr þjálfari yrði mættur að viku liðinni, þ.e. næsta mánudag.



Gerrard tók við stjórnartaumunum hjá Rangers árið 2018 og undir hans stjórn tóks liðinu að vinna deildina í fyrsta skipti í tíu ár á seinasta tímabili, en liðið tapaði ekki einum einasta leik það tímabil. Liðið situr nú í efsta sæti með 30 stig eftir 13 leiki, fjórum stigum fyrir ofan erkifjendurna í Celtic sem verma annað sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×