Erlent

Bol­sonaro skráir sig í stjórn­mála­flokk

Atli Ísleifsson skrifar
Jair Bolsonaro er farinn að huga að endurkjöri, en forsetakosningar fara fram í Brasilíu á næsta ári.
Jair Bolsonaro er farinn að huga að endurkjöri, en forsetakosningar fara fram í Brasilíu á næsta ári. AP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur skráð sig í og gengið til liðs við hinn hægrisinnaða Frjálslynda flokk (PL) í landinu. Hann hefur staðið utan flokka frá árinu 2019.

AP segir að hægripopúlistinn Bolsonaro hafi sagt skilið við sinn gamla flokk innan við ári eftir að hann tók við embætti forseta, en til að geta boðið sig fram til endurkjörs í kosningum á næsta ári verður hann að vera skráður í flokk þar sem lögum samkvæmt mega óháðir ekki bjóða sig fram.

Bolsonaro ákvað að skrá sig í PL eftir að hafa mistekist að safna hálfri milljón undirskrifta til að geta stofnað og skráð sinn eigin flokk. PL er hluti af hinu svokallaða „centrão“, óformlegs bandalags flokka sem lengi hafa verið við völd í landinu. Bolsonaro hefur áður verið harðorður í garð þeirra gömlu valdaflokka, „centrão“.

Bolsonaro vann sigur í forsetakosningunum 2018 sem frambjóðandi flokksins PSL, en sagði skilið við flokkinn árið 2019 eftir deilur um kosningaframlög. Á stjórnmálaferli sínum hefur Bolsonaro lengi flakkað á milli stjórnmálaflokka.

Forsetakosningar fara fram í Brasilíu í október á næsta ári.


Tengdar fréttir

Öldungadeildin samþykkir ákærur á hendur Bolsonaro

Öldungadeildarþingmenn í Brasilíu hafa samþykkt að ákæra forseta landsins, Jair Bolsonaro, fyrir framgöngu hans í kórónuveirufaraldrinum. Forsetinn verður meðal annars ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni en 600 þúsund hafa látist vegna Covid-19 í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×