Formúla 1

Ó­­­trú­­legur sigur Hamilton: „Hefur verið ein besta, ef ekki sú besta, helgi ferilsins“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewis Hamilton vann ótrúlegan sigur í Brasilíu í dag.
Lewis Hamilton vann ótrúlegan sigur í Brasilíu í dag. Mark Thompson/Getty Images

Lewis Hamilton gerði nokkuð sem enginn hafði áður gert í Formúlu 1 kappakstrinum sem fram fór í Brasilíu í dag. Hann var tíundi er kappakstur dagsins hófst en stóð uppi sem sigurvegari.

Eftir að starfsfólk Red Bull hafði bent forráðamönnum Formúlu 1 á að bíll Lewis Hamilton stæðist mögulega ekki reglugerð sambandsins þá fékk hann refsingu. Hann var því tíundi er keppni hófst í Sao Paulo í kvöld.

Valtteri Bottas var á ráspól, þar á eftir kom Max Verstappen hjá Red Bull og Carlos Sainz hjá Ferrari var þriðji. Hamilton sýndi hins vegar snilli sína og þaut fram úr hverjum bílnum á fætur öðrum. 

Á endanum stakk hann sér fram fyrir Verstappen og vann þar með kappaksturinn. Bottas, liðsfélagi Hamilton hjá Mercedes, kom svo þriðji í mark. 

Fyrir daginn í dag hafði enginn ökumaður byrjað svona aftarlega og staðið uppi sem sigurvegari. Hamilton skráði sig þar með enn á ný í sögubækurnar er hann kom fyrstur í mark.

„Þú getur gert allt ef þú leggur þig allan fram. Þessi helgi er sönnun þess. Þessi orrusta fór fram á brautunni og ég gæti ekki verið stoltari af Mercedes og Valtteri Bottas, mínum ótrúlega liðsfélaga. Ég gæti þetta ekki án hans. Við höldum áfram að berjast,“ sagði Hamilton á Twitter-síðu sinni eftir sigur dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×