Innherji

Seldi í Bláa lóninu og keypti í Arion

Hörður Ægisson skrifar
Helgi Magnússon er meðal annars aðaleigandi útgáfufélags Fréttablaðsins.
Helgi Magnússon er meðal annars aðaleigandi útgáfufélags Fréttablaðsins.

Félag í eigu Helga Magnússonar, fjárfestis og aðaleigenda útgáfufélags Fréttablaðsins, hefur nýlega bæst við hluthafahóp Arion banka og heldur í dag á bréfum í bankanum sem eru metin á tæplega 700 milljónir króna að markaðsvirði.

Kaup Helga í Arion banka, sem eru gerð í gegnum eignarhaldsfélagið Hofgarðar, komu í kjölfar þess að hann seldi allan 6,2 prósenta hlut sinn í Bláa lóninu undir lok ágústmánaðar á þessu ári til fjárfestingafélagsins Stoða.

Samkvæmt lista yfir alla hluthafa Arion banka í lok síðustu viku, sem Innherji hefur séð, átti félag Helga um 3,5 milljónir hluta að nafnverði. Gengi bréfa Arion, sem hafa hækkað um meira en 100 prósent frá áramótum, stóð í 191 krónum á hlut við lokun markaða í dag og er hlutur Helga því verðmetinn á liðlega 670 milljónir.

Skömmu eftir að Helgi seldi hlut sinn í Bláa lóninu gerði Sigurður Arngrímsson, fjárfestir og einn af stærri hluthöfum Bláa lónsins um árabil í gegnum eignarhaldsfélagið Saffron Holding, slíkt hið sama – hlutur hans nam einnig 6,2 prósentum – þegar hann seldi bréf sín í ferðaþjónustufyrirtækinu til Blávarma, félags í eigu fjórtán lífeyrissjóða, fyrir jafnvirði um 3,8 milljarða króna. 

Hlutabréfaverð Arion banka hefur hækkað um meira en 100 prósent frá áramótum. 

Samkvæmt heimildum Innherja seldi Helgi, sem hafði verið stjórnarformaður Bláa lónsins um árabil, hlut sinn á lítillega lægra verði en í tilfelli Sigurðar.

Helgi hefur verið aðaleigandi Torgs, sem rekur Fréttablaðið, Hringbraut og DV, frá því haustið 2019. Á síðasta ári minnkuðu tekjur félagsins um tæplega 300 milljónir og nam tap á rekstrinum um 600 milljónum króna.

Hagnaður Hofgarða á síðasta ári var um 420 milljónir króna og bókfært eigið fé félagsins stóð í tæplega 3 milljörðum króna í árslok.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×