Umræðan

Umboðsskylda á pólitískum tímum

Ársæll Valfells skrifar

Fáum dylst að nú er COP26 nýlokið sem er ráðstefna 197 landa sem hafa undirgengist loftlagssamning Sameinuðu þjóðanna sem hefur að markmiði að „preventing “dangerous” human interference with the climate system,“ eins og það er orðað í samningnum. Ísland er þeirra á meðal. Á ráðstefnuna mæta fjölmargir hagsmunaaðilar, svo sem opinberir aðilar, fyrirtæki, hagsmunasamtök og fagfjárfestar. Í fréttaflutningi af ráðstefnunni, sem og í umræðum um loftslagsmál almennt, er togast á um fjölmörg atriði.

Deilt er um tilgátuna um að mannkynið með sinni tilveru hafi áhrif á loftslagskerfið með þeim hætti sem að hættulegt teljist. Meðal þeirra sem samþykkja tilgátuna er deilt um hvernig sú íhlutun á sér stað, hversu hættuleg hún er og hversu aðkallandi hættan er. Til eru þeir sem aðhyllast kenningu um að íhlutunin valdi hlýnun, aðrir halda fram að íhlutunin fyrirbyggi óumflýjanlega kólnun, enn aðrir tala um aukna tíðni veðrabreytinga, þ.e. tíðni hamfara af völdum fyrirbæra er tengjast loftslagskerfinu.

Einnig er deilt um það í hverju bjargræði mannkyns er fólgið. Í þeirri umræðu hafa komið fram hávær sjónarmið um að mannkynið eigi að umbylta orkukerfi sínu, skipta út matartegundum, endurskipuleggja byggingu húsnæðis, umbylta eða draga úr helstu samgöngum og flutningum. Aðrir hvetja til nýtingu tækni og vísinda til að innleiða aðferðir til að stýra loftslaginu. Til dæmis að planta trjám, framleiða ský til að hylja jörðina, senda spegla út í geim til að endurkasta sólarljósi eða skrúbba kolsýring úr andrúmsloftinu og farga með einhverjum hætti.

Hér skal ekki slegið því föstu hvort eða hverjir í þessari flóknu umfjöllun hafa rétt eða rangt fyrir sér. En af umfjölluninni má hins vegar ráða að margt er enn mjög óljóst eða skammt á veg komið er varðar nákvæmlega hvað og þá hvernig skal bregðast við.

Þurfa að fá fjárfestinguna til baka 

En verði raunin sú að stjórnvöld komist að framkvæmanlegri niðurstöðu sem sátt ríkir um þá þarf sú niðurstaða með einhverjum hætti að lokum að endurspeglast í laga-, reglu- og skattkerfisbreytingum þannig að breyttu breytanda fylgi fjármagn frá hinu opinbera og fagfjárfestum í þau verkefni sem eiga þoka mannkyninu að markmiði niðurstöðunnar. Verkefni sem þurfa að endurgreiða fjárfestum þeirra fjárfestinguna til baka.

Því vakti það vakti nokkra athygli þegar tilkynning barst fyrir skömmu frá Landsambandi lífeyrissjóða að þrettán íslenskir lífeyrissjóðir ætla að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition. Ekki var að finna í fréttatilkynningum nánari upplýsingar um skilmála þessarar viljayfirlýsingar.

Þessi tilkynning leiðir hugann að fyrirkomulagi lífeyrismála á Íslandi. Hvernig passar viljayfirlýsing eins og þessi inn í viðskiptasambandið sem ríkir á milli lífeyrissjóðs og lífeyrisþega. Hvert er umboð þeirra sem skrifuðu undir þessa viljayfirlýsingu?

Rit Óla Freys Kristjánssonar, Umboðsskylda, sem Arion banki gaf út 2017, er gagnmerkt um sögu, þróun og stöðu hugtaksins umboðsskylda. Kveikjan að þessu riti var breyting á lögum um starfsemi lífeyrissjóða árið 2016 þar sem umboðsskylda var innleidd að einhverju leyti. Eins og segir í ritinu lýsir hutakið þeirri skyldu sem umboðsmanni ber að rækja gagnvart umbjóðanda sínum, fara með ákvörðunarvald umbjóðands og gæta hagsmuna hans óháð öðrum hagmunum. 

Þröng skilgreining umboðshugtaksins er rakin til hluthafakenningar Milton Friedman. Umboðið nái þannig einvörðungu til þess að hámarka fjárhagslega hagsmuni umbjóðenda, að teknu tilliti til þeirra reglna, laga og siðvenja sem gilda. Víð skilgreining umboðshugtaksins felst í því að fleiri þættir en hreinir fjárhagslegir hagsmunir umbjóðenda falli undir umboðið, til að mynda samfélagsleg ábyrgð, umhverfismál, eignajöfnuður milli kynslóða. Því hafnaði Friedman og benti á að umboðsmaður sem fer út fyrir sitt fjárhagslega umboð hættir þá að vera umboðsmaður og fer að beita sér eins og hann sé umbjóðandinn.

Lífeyrissjóðir spyrji umbjóðendur sína

Nokkur vandi er að nálgast áreiðanlegar viðhorfskannanir fólks hér á landi til þess sem er að gerast í loftslagsmálum, en af könnunum má ráða að stjórnmálaskoðanir einstaklinga skipta máli hvar fólk raðar sér á bekk í loftlagsmálum. Stofnunin American Public Opinion on Global Warming sem er rekin af Stanford háskóla tiltekur að aðeins 25% Bandaríkjamanna telji loftslagsmál varða sig persónulega. Kannanir sýna einnig að kjósendur repúblikana eru vantrúaðir en demókratar líklegri til að vera sannfærðir. Könnun á vegum Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna tiltekur að meirihluti fólks á heimsvísu sé sammála því að um sé að ræða neyðarástand í loftslagsmálum. Svo er deilt um aðferðafræði og réttmæti niðurstaðna þessara kannana.

Þannig standa forsvarsmenn lífeyrissjóða í þeim sporum að þeim ber að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna og þurfa að taka afstöðu til þess hvar umboð þeirra byrjar og hvar það endar.

 Eitt er víst að fjárhagslegir hagsmunir umbjóðanda þeirra eru megin hagsmunir sjóðanna. Eftir stendur hvort skuldbinding lífeyrissjóða til fjárfestingar fjármuna umbjóðenda sinna í málaflokk sem er öðrum þræði pólitískur og því í eðli sínu umdeildur, meðal að minnsta kosti hluta umbjóðenda lífeyrissjóðanna, falli undir umboðsskyldu þeirra eður ei.

Kannski er lausnin einföld í þessu máli sem og í öðrum umdeildum fjárfestingum. Sjóðirnir spyrji umbjóðendur sína hvort þeir vilji að fé þeirra fari í slíkar fjárfestingar, þannig að víkkað umboð þeirra byggi að lágmarki á traustum lýðræðislegum grundvelli.

Ársæll Valfells, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir




Umræðan

Sjá meira


×