Enski boltinn

Conte beið við símann en enginn frá United hringdi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Conte vildi taka við Manchester United en áhuginn var ekki gagnkvæmur.
Antonio Conte vildi taka við Manchester United en áhuginn var ekki gagnkvæmur. getty/Visionhaus

Antonio Conte var tilbúinn að taka við Manchester United áður en Tottenham réði hann.

Margir töldu að starf Ole Gunnars Solskjær hjá United héngi á bláþræði eftir 0-5 tapið fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. 

Conte var einn þeirra sem var orðaður við United á þeim tíma. Og samkvæmt ítölsku fótboltavéfréttinni Fabrizio Romano vildi hann taka við United og beið eftir að forráðamenn félagsins hefðu samband. En það gerðist ekki, United hélt tryggð við Solskjær og Conte tók við Tottenham af Nuno Espirito Santo. Hann var einmitt rekinn eftir 0-3 tap fyrir United.

Conte hefur stýrt Spurs í tveimur leikjum, 3-2 sigri á Vitesse Arnheim í Sambandsdeildinni og markalausu jafntefli gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Solskjær er enn við stjórnvölinn hjá United sem tapaði fyrir grönnum sínum í Manchester City, 0-2, í síðasta leik sínum fyrir landsleikjahléið. Fyrsti leikur United eftir það er gegn Watford á útivelli á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×