Þúsundir farandsfólks hefur safnast saman við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands undanfarna daga. Ráðamenn Evrópusambandsins saka Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands um að senda fólki að landmærunum að nágrannaríkjunum Póllandi, Litháen og Lettlandi til þess að ná sér niðri á Evrópuríkjum vegna refsiaðgerða þeirra og skapa glundroða.
Eistland á ekki landamæri að Hvíta-Rússlandi en þarlend stjórnvöld segja að á æfingunni setji varaliðsmennirnir gaddavír á fjörutíu kílómetra hluta landamæranna að Rússlandi þar sem mestar líkur eru taldar á að fólk reyni að smygla sér yfir ólöglega, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Rússar eru nánir bandamenn Hvítrússa.
„Það sem á sér stað í Póllandi, Litháen og Lettlandi krefst þess einnig að innviðir á landamærum Eistlands séu styrktir,“ segir Elmar Vaher, lögreglustjóri og landamæravörður í Eistlandi.
Æfingin á að standa yfir til 25. nóvember. Eistneska ríkisstjórnin segir að henni sé ætlað að æfa viðbrögð stjórnkerfisins.
Nágrannaríki Hvíta-Rússlands hafa varað við því að deilurnar gætu leitt til hernaðarátaka. Þau hafa kallað út herlið að landamærum sínum og lýst yfir neyðarástandi.