Fótbolti

Skosku meistararnir búnir að ráða eftirmann Gerrard

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Giovanni van Bronckhorst var í dag kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Rangers.
Giovanni van Bronckhorst var í dag kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Rangers. Marcel Bonte/Soccrates/Getty Images

Hollenski þjálfarinn Giovanni van Bronkchorst var í dag kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Skotlandsmeistara Rangers. Hann tekur við liðinu af Liverpool goðsögninni Steven Gerrard sem tók á dögunum við Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni.

Van Bronkchorst er 46 ára, en hann lék með Rangers frá 1998 til 2001 og vann fimm titla með félaginu. Þar af varð hann skoskur meistari tvisvar með Rangers.

Á ferli sínum sem leikmaður lék hann einnig með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann vann deildina tímabilið 2001-2002 og FA bikarinn ári seinna. Þá varð hann spænskur meistari með Barcelona í tvígang og með Börsungum vann hann einnig Meistaradeild Evrópu árið 2006. Hann á einnig að baki 106 leiki fyrir hollenska landsliðið.

Van Bronkchorst hóf þjálfaraferil sinn hjá Feyenoord í hollensku deildinni, en atvinnumannaferill hans sem leikmaður hófst einmitt þar. Hann tók við sem aðalþjálfari liðsins árið 2015 og gerði þá að hollenskum meisturum tímabilið 2016-2017.

Van Bronkchorst tekur við Rangers í efsta sæti deildarinnar. Liðið er með 30 stig eftir 13 leiki, fjórum stigum meira en erkifjendurnir í Celtic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×