Enski boltinn

Framtíð Lingard í óvissu eftir að samningaviðræður sigldu í strand

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jesse Lingard gæti yfirgefið Manchester United þegar samningur hans við félagið rennur út næsta sumar.
Jesse Lingard gæti yfirgefið Manchester United þegar samningur hans við félagið rennur út næsta sumar. Matthew Peters/Manchester United via Getty Images

Framtíð miðjumannsins Jesse Lingard er í óvissu eftir að viðræður hans við Manchester United um framlengingu á samningi hans sigldu í strand.

Núverandi samningur leikmannsins við United rennur út næsta sumar, en liðið vonaðist til að Lingard myndi skrifa undir nýjan samning eftir góða frammistöðu á lánstíma sínum hjá West Ham.

Þrátt fyrir áhuga frá öðrum liðum ákvað Lingard að halda kyrru fyrir hjá United og vonaðist eftir meiri spiltíma undir Ole Gunnar Solskjær, þjálfara liðsins.

Lingard hefur hins vegar aðeins byrjað einn leik á tímabilinu, en það var í tapi gegn einmitt West Ham í enska deildarbikarnum. Hann hefur komið inn á sem varamaður sjö sinnum á tímabilinu og spilað samtals 76 mínútur.

Breski miðillinn The Times er meðal þeirra sem greina frá stöðu Lingard, en samkvæmt þeim er líklegt að leikmaðurinn yfirgefi United á frjálsri sölu þegar samningur hans rennur út næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×