Erlent

Skógar­eyðing í Brasilíu ekki verið meiri í fimm­tán ár

Atli Ísleifsson skrifar
Skógareyðing í Brasilíu hefur aukist í forsetatíð Jair Bolsonaro sem hefur hvatt til aukins landbúnaðar og námuvinnslu í regnskógunum.
Skógareyðing í Brasilíu hefur aukist í forsetatíð Jair Bolsonaro sem hefur hvatt til aukins landbúnaðar og námuvinnslu í regnskógunum. Getty

Eyðing brasilísku regnskóganna hefur ekki verið meiri í heil fimmtán ár samkvæmt opinberum gögnum þar í landi.

Í nýrri skýrslu brasilísku geimvísindastofnunarinnar segir að skógareyðing í landinu hafi aukist um heil 22 prósent á einu ári.

Brasilía var í hópi þeirra ríkja sem hétu því að binda endi á skógareyðingu og snúa við þróuninni fyrir árið 2030 á nýafstaðinni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Glasgow á dögunum.

Í frétt BBC segir að í Amasón séu vistarverur rúmlega þriggja milljóna plöntu- og dýrategunda, auk þess að þar búa um milljón frumbyggja. Einnig séu skógarnir mikilvæg kolefnisgeymsla og er mikilvægur liður í að hægja á loftslagsbreytingum.

Á tímabilinu 2020 til 2021 hafa 13.235 ferkílómetrar af skóglendi verið eyddir í Brasilíu og er samanlagt svæði það stærsta frá árinu 2006.

Skógareyðing hefur aukist í forsetatíð Jair Bolsonaro sem hefur hvatt til aukins landbúnaðar og námuvinnslu í regnskógunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×