Enski boltinn

Newcastle á botninum - Gerrard byrjar með sigri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gerrard fagnar á hliðarlínunni í dag.
Gerrard fagnar á hliðarlínunni í dag. vísir/Getty

Newcastle vermir botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar og er enn án sigurs eftir tólf leiki. Steven Gerrard hóf stjóratíð sína í deildinni með sigri á heimavelli.

Gerrard tók við Aston Villa af Dean Smith á dögunum og var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Gerrard gegn Brighton á heimavelli. Leikurinn var markalaus allt þar til á síðustu mínútum leiksins þegar Ollie Watkins og Tyrone Mings skoruðu sitt markið hvor og tryggðu Gerrard 2-0 sigur.

Newcastle United tókst ekki að leggja nýliða Brentford að velli á heimavelli þrátt fyrir að hafa skorað þrjú mörk en leiknum lauk með 3-3 jafntefli. Á sama tíma vann Norwich 2-1 sigur á Southampton sem þýðir að Newcastle er eitt á botni deildarinnar með sex stig en Norwich hefur átta stig, einu sæti ofar.

Það var álíka fjör á Turf Moor þar sem Crystal Palace var í heimsókn hjá Burnley en þeim leik lauk einnig með jafntefli í sex marka leik, 3-3.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley og lék allan leikinn.

Wolverhampton Wanderers tókst að stöðva frábært gengi West Ham en Raul Jimenez gerði eina mark heimamanna í 1-0 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×