„Ársvöxtur peningamagns varð mestur um 14 prósent í nóvember í fyrra en frá þeim tíma hefur hægt á honum og mældist hann 8,1 prósent á þriðja fjórðungi ársins sem er svipaður vöxtur og á öðrum ársfjórðungi,“ segir í peningamálum.
Innlán heimila í bankakerfinu jukust um 8,5 prósent milli ára á þriðja fjórðungi ársins og hefur heldur hægt á vexti þeirra þótt hann sé enn nokkur. Þá hafa innlán fjármálafyrirtækja dregist saman það sem af er ári og þá helst innlán lífeyris- og peningamarkaðssjóða.
Í peningamálum er bent á að hraður vöxtur peningamagns í kjölfar farsóttarinnar einskorðist ekki við Ísland. Hann endurspegli þá miklu slökun á peningalegu aðhaldi sem víða var gripið til auk víðtækra stuðningsaðgerða stjórnvalda.
![](https://www.visir.is/i/E53938053AA02AD26BD5DA90D5B3F7E96C78A100A7BC66F787D66764FF1C93B9_713x0.jpg)
Þá dró farsóttin mjög úr neyslumöguleikum heimila og mikill sparnaður byggðist upp sem leitaði að nokkrum hluta í innlán í bankakerfinu. Aukin innlán almennings í bankakerfinu endurspegla einnig mikinn vöxt útlána til fasteignakaupa.
Ársvöxtur útlána lánakerfisins hefur verið nokkuð stöðugur það sem af er ári eða í kringum 5,5 prósent eftir að hafa mælst yfir 6 prósent á fjórða fjórðungi síðasta árs. Útlán til heimila vega þungt en vöxtur þeirra hefur verið á bilinu 9-11 prósent það sem af er ári.
![](https://www.visir.is/i/F779549810724EE80D044E701C06C78E905F135E27385CC80DFEC08724A1CAEF_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.