Erlent

Flug­maður sakaður um morð á tveimur Áströlum í gæslu­varð­hald

Atli Ísleifsson skrifar
Ekkert hefur spurst til þeirra Russell Hill, 74 ára, og Carol Clay, 73 ára, síðan í mars á síðasta ári.
Ekkert hefur spurst til þeirra Russell Hill, 74 ára, og Carol Clay, 73 ára, síðan í mars á síðasta ári. Lögregla í Viktoríu

Flugmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna morða á eldri manni og eldri konu sem voru á tjaldferðalagi í Ástralíu og hurfu sporlaust fyrir tæpum tveimur árum.

Guardian segir frá því að hinn 55 ára Greg Lynn hafi verið handtekinn síðasta mánudagskvöld þegar lögregla hafði uppi á honum og sótti á lögregluþyrlum á tjaldsvæði í Viktoríu. 

Lynn er grunaður um að hafa myrt þau Russell Hill, 74 ára, og Carol Clay, 73 ára, en ekkert hefur spurst til þeirra síðan í mars á síðasta ári.

Fyrr í dag var Lynn svo úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um morð á hjónunum og munu réttarhöld í málinu fara fram á næsta ári.

Ástralskir fjölmiðlar segja Lynn hafa starfað sem flugmaður hjá Jetstar – lággjaldaflugfélagi Qantas – en verið sagt upp fyrr í vikunni eftir að hann var handtekinn.

Þau Hill og Clay voru á ferðalagi í Viktoríu-fjallaþjóðgarðinum vorið 2020 og leiddi hvarfið til einnar umfangsmestu leitar í sögu Ástralíu. Ástralskir fjölmiðlar segja þau hafa átt í ástarsambandi.

Lögregla telur að þau hafi verið myrt þann 20. mars 2020. Þau höfðu þá notast við talstöð til að hringja til vinar síns fyrr um daginn og sögðust þá vera að koma upp tjaldi í Wonnangatta-dalnum. Tjaldið fannst svo brunnið til ösku daginn eftir.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að tjaldsvæðið þar sem Lynn var handtekinn sé um 55 kílómetrum frá þeim stað þar sem tjald hjónanna fannst á sínum tíma.

Uppfært: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að þau Hill og Clay hafi verið hjón, en það er ekki raunin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×