Áherslur nýrrar ríkisstjórnar voru kynntar til leiks á Kjarvalsstöðum í dag þar sem Katrín, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, skrifuðu undir sáttmálann.
Í viðtali að athöfninni lokinni var Katrín spurð að því hver væru stærstu tíðindi sáttmálans?
„Það eru auðvitað mörg tíðindi og við reynum að setja þarna niður okkar stærstu áskoranir. Ég ræddi loftlagsvánna hér áðan og þar erum við að setja fram þau tíðindi að Ísland ætlar núna í fyrsta sinn að setja sér sjálfstætt landsmarkmið um samdrátt í losun á eigin ábyrgð um 55 prósent. Það eru heilmikil tíðindi,“ sagði Katrín.
Mikið hefur mætt á Svandísi Svavarsdóttir sem gegnt hefur embætti heilbrigðisráðherra en mun nú færa sig um set og taka við sem matvæla, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Aðspurð að því hvort það væri einhver áfellisdómur að Svandís væri færð úr heilbrigðisráðuneytinu sagði Katrín það ekki vera svo.
„Það var í raun og veru ég sem talaði mest fyrir því að við ættum að hreyfa ráðuneytin sem mest. Ástæðan fyrir því er einföld. Við höfum verið að vinna saman í fjögur ár. Það er mikilvægt að fólk einmitt takist hendur ný verkefni,“ sagði Katrín sem er ánægð með þau ráðuneyti sem flokkurinn fær.
Sjálf verður hún áfram forsætisráðherra en auk Svandísar færir Guðmundur Ingi Guðbrandsson sig úr umhverfisráðuneytinu í stól félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Við erum að fá til okkar gríðarlega mikilvæg ráðuneytinu sem eru félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem er gríðarlega krefjandi verkefni,“ sagði Katrín.
Svandísar biði að mati Katrínar krefjandi verkefni.
„Síðan er það auðvitað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þar sem er gríðarleg áhersla á innlenda matvælaframleiðslu í þessum stjórnarsáttmála en líka á loftslagsaðgerðir sem tengjast því,“ sagði Katrín.
Nokkrar hrókeringar voru gerðar á ráðherraskipan að þessu leyti og telur Katrín að flokkarnir séu ánægðir með sitt.
„Eg held að við öll séum frekar sátt við þau verkefni sem ivð erum að fá. Auðvitað er það þannig að ég er ekki í nokkrum vafa að í öllum þremur flokkunum hafa heyrst raddir sem vildi halda öllu óbreyttu en ég held hins vegar að þetta sé miklu meira spennandi.“