Þorsteinn Einarsson meðlimur hljómsveitarinnar Hjálmar hefur nú samið lag við þetta ljóð Kára og birtist myndband við lagið á Youtube fyrr í dag. Er þetta myndband í svarthvítu af berskjölduðum Kára Stefánssyni og undir spilast þetta dásamlega lag sem hefur fengið nafnið Kona. Einlægni og tilfinningar Kára ná beint í gegn til áhorfandans í þessu hráa og kraftmikla myndbandi.
Kári Stefánsson missti ástina sína Valgerði Stefánsdóttur fyrr í mánuðinum en þau höfðu verið förunautar í 53 ár. Hann hefur birt nokkur ljóð til hennar á Facebook síðu sinni en sveitin Hjálmar ná að fanga þetta umrædda ljóð á listrænan hátt þar sem kærleikurinn skín í gegn.
- Þú ert enn þá ilmur blóma
- Enn þá sveipuð skærum ljóma
- Seiðandi bjartar sumarnætur
- Sem mér ávallt finnast lætur
- Að friðurinn sé hér
Brot úr texta eftir Kára Stefánsson við lagið Kona
Hjálmar hafa í gegnum tíðina unnið með fjöldanum öllum af listamönnum á borð við Prins Póló, Mugison, Jimi Tenor og Erlend Oye og eiga þeir mikið af lögum sem eru orðin að þjóðargersemum. Þetta er í fyrsta skipti sem hljómsveitin vinnur með Kára en vonandi ekki það síðasta, þar sem þessir ólíku lífsins listamenn vinna óaðfinnanlega saman.