Enski boltinn

Ronaldo sakar ritstjóra France Football og yfirmann Ballon d'Or um að ljúga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur skilað mörkum hjá Manchester United eins og hjá Juventus og portúgalska landsliðinu en gengi liða hans var ekki gott á árinu 2021.
Cristiano Ronaldo hefur skilað mörkum hjá Manchester United eins og hjá Juventus og portúgalska landsliðinu en gengi liða hans var ekki gott á árinu 2021. Getty/Daniel Chesterton

Þetta eru ekki alltof góðir dagar fyrir Cristiano Ronaldo. Á sunnudaginn byrjaði hann á bekknum í stórleik Manchester United á móti Chelsea og í gær náði Lionel Messi tveggja Gullhnatta forskoti á hann.

Ronaldo náði sér þó í talsverða athygli í gærkvöldi þrátt fyrir að skrópa á verðlaunahátíðina þegar hann sendi frá sér mikla yfirlýsingu á samfélagsmiðlum sínum.

Ronaldo var þá að svara fyrir ummæli Pascal Ferre um sig. Ferre er ritstjóri France Football blaðsins sem veitir Gullhnöttinn eða Ballon d'Or eins og þau eru þekkt erlendis.

Ferre talaði um Cristiano Ronaldo í viðtali við New York Times á síðustu viku. Þar sagði hann að eini metnaður Ronaldo væri fyrir því að enda með fleiri Gullhnetti en Messi.

Eftir verðlaunin hjá Messi í gær er sá möguleiki úr sögunni. Ronaldo var mjög ósáttur með þessi ummæli sem Ferre sagði að leikmaðurinn hefði sagt við sig sjálfur.

„Niðurstaðan í dag útskýrir af hverju Pascal Ferre sagði í síðustu viku að eini metnaður minn væri að enda feril minn með fleiri Ballons d'Or styttur en Lionel Messi,“ skrifaði Cristiano Ronaldo.

„Pascal Ferre laug og notaði mitt nafn til að koma sér á framfæri og auglýsa fjölmiðilinn sem hann vinnur hjá,“ skrifaði Ronaldo.

„Það er óásættanlegt að maður, sem hefur þá ábyrgð að veita svona virt verðlaun, geti logið með þessum hætti og bera með því enga virðingu fyrir manni sem hefur alltaf borið sjálfur virðingu fyrir France Football og the Ballon d'Or,“ skrifaði Ronaldo.

„Hann laug síðan aftur í dag með því að útskýra fjarveru mína frá hátíðinni með því að ég ætti að vera í sóttkví. Það er engin ástæða fyrir slíku,“ skrifaði Ronaldo sem skrópaði á hátíðina vegna ósættisins við Pascal Ferre.

Cristiano Ronaldo endaði í sjötta sæti í kjörinu en hann hafði ekki endaði utan topp þrjú síðan árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×