Enski boltinn

Raphinha tryggði Leeds dramatískan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Raphinha skoraði sigurmark Leeds í uppbótartíma.
Raphinha skoraði sigurmark Leeds í uppbótartíma. George Wood/Getty Images

Raphinha reyndist hetja Leeds er liðið tók á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur urðu 1-0, en sigurmarkið kom af vítapunktinum í uppbótartíma.

Leikurinn var heldur tíðindalítill framan af og hvorugu liðinu tókst að brjóta ísinn í fyrri hálfleik og staðan því 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Svipaða sögu er að segja af seinni hálfleik, en báðum liðum gekk illa að skapa sér nægilega góð færi til að koma boltanum í netið.

Það dró ekki til tíðinda fyrr en á annarri mínútu uppbótartíma þegar Liam Cooper skallaði hornspyrnu Raphinha í átt að marki. Boltinn hafnaði í hendi Marc Guehi af stuttu færi, og eftir stutta skoðun í skjánum góða benti dómari leiksins á vítapunktinn.

Raphinha fór á punktinn og setti boltann framhjá Vicente Guaita og tryggði heimamönnum þar með stigin þrjú.

Leeds situr nú í 15. sæti deildarinnar með jafn mörg stig eftir 14 leiki, einu stigi á eftir Crystal Palace sem situr í tólfta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×