Enski boltinn

Telja niður í jólin með þrumu­fleyg Kára Árna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kári Árnason í baráttunni við ungan Andy Carroll, þáverandi leikmann Newcastle United.
Kári Árnason í baráttunni við ungan Andy Carroll, þáverandi leikmann Newcastle United. Owen Humphreys/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Plymouth Argyle telur niður til jóla með glæsilegustu mörkum undanfarinna ára. Í dag var markið í boði Kára Árnasonar, fyrrverandi landsliðsmanns og núverandi Íslands- og bikarmeistara hér heima.

Landsliðsmiðvörðurinn fyrrverandi lék með Plymouth frá árinu 2009 til 2013. Skoraði hann þrjú mörk í 72 leikjum ef marka má Wikipedia-síðu kappans. Markið – sem sjá má hér að neðan – var einkar glæsilegt og í raun ótrúlegt að Kári hafi ekki látið vaða oftar á markið á ferli sínum.

Kári er í dag 39 ára gamall og lagði skóna á hilluna eftir farsælan feril með bæði félags- og landsliði. Hann var máttarstólpi í besta landsliði Íslandssögunnar og endaði svo ferilinn á ævintýralegan hátt, með því að verða Íslands- og bikarmeistari með uppeldisfélagi sínu.

Skyggnst verður á bakvið tjöldin á þessum ótrúlega endi tímabilsins í þáttunum „Víkingar: Fullkominn endir“ sem hafa nú þegar hafið göngu sína á Stöð 2 og Stöð 2 Sport.

Hvað Plymouth Argyle varðar þá vann liðið 2-1 sigur á Rochdale í kvöld og tryggði sér þar með sæti í 3. umferð FA-bikarsins. Þá er liðið í 4. sæti ensku C-deildarinnar með 36 stig, tveimur stigum á eftir toppliðum Rotherham, Wigan Athletic og Wycombe Wanderers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×