Enski boltinn

Út­­skýrði af hverju hann er bólu­settur: „Sér­­­fræðingar sem hafa unnið við þetta í mörg ár“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mo Salah í leik gegn Norwich City.
Mo Salah í leik gegn Norwich City. AP photo/Rui Vieira

Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, útskýri nýverið af hverju hann lét bólusetja sig gegn kórónuveirunni. Fyrir hann væri svipað að fara gegn ráðum sérfræðinga og þegar fólk út á götu segir honum hvað hann eigi að gera inn á vellinum.

Mikil umræða hefur myndast í kringum hvort íþróttafólk á hæsta getustigi sé bólusett eða hvort það ætti að láta bólusetja sig. 

Frægustu dæmin um óbólusetta leikmenn eru Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta, og Joshua Kimmich, leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern.

Salah – einn albesti leikmaður heims um þessar mundir – hefur opinberað að hann sé bólusettur og segir ástæðuna frekar einfalda: Sérfræðingar í þessum fræðum mæla með því.

„Já ég er bólusettur, læknar og fólk sem hefur unnið innan læknisfræðinnar til fjölda ára mæla með því. Ef ég segði að það væri rangt þá væri það líkt og þegar fólk út á götu segir mér að ég hafi átt að gefa boltann þarna frekar en hérna,“ sagði Egyptinn og skaut létt á sófakartöflur Liverpool-borgar.

„Læknar og WHO (Alþjóða heilbrigðisstofnunin) segja að við eigum að taka bóluefni og við verðum að fylgja þeim,“ sagði Salah að endingu um málið.

Salah hefur verið magnaður það sem af er leiktíð. Hann er kominn með sjö mörk í sex leikjum í Meistaradeild Evrópu, þá hefur hann skorað 13 og lagt upp 11 í aðeins 15 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×