Lífið

Fúlsar við Fyrsta blikinu og horfir frekar til Filippseyja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árni Stefán Árnason dýralögfræðingur verður ekki í annarri þáttaröð af Fyrsta blikinu þrátt fyrir að vinur hans hafi skorað hann á að sækja um.
Árni Stefán Árnason dýralögfræðingur verður ekki í annarri þáttaröð af Fyrsta blikinu þrátt fyrir að vinur hans hafi skorað hann á að sækja um. Vísir

Árni Stefán Árnason, dýralögfræðingur sem hefur látið sig varða umræðuna um blóðmerahald og annað er við kemur dýravelferð, segir ekki annað fyrir íslenska karlmenn á hans aldri en að leita annað, til dæmis til Filippseyja. Aktvívistahópnum Öfgum blöskrar ummæli lögfræðingsins og segja skrifin ógeðfelld.

Árni Stefán lætur þessi orð falla á Facebook í tilefni þess að Ása Ninna Pétursdóttir, sem stýrir sjónvarpsþáttunum Fyrsta blikinu, sagðist leita að eldri karlmönnum fyrir tökur á næstu þáttaröð. 

Ása Ninna segir pörunarferlið fyrir aðra seríu í fullum gangi, þ.e. verið er að raða fólki sem líklegt er að passi vel saman á stefnumót, en greinilegt að karlmenn eldri en 35 ára séu ragari við að sækja um í þættinum.

„Yngri karlmennirnir eru greinilega miklu hugrakkari en til þess að við getum náð fleiri möguleikum á pörunum ætlum við að opna umsóknargluggann aftur í tvo daga og hvetjum því karlmenn á öllum aldri til þess að rífa sig í gang og freista þess að lenda í smá ævintýri,“ sagði Ása Ninna í gær.

Steikin í toppstykkinu sé orðin svo mikil

Ólíklegt er að hinn 61 árs gamli Árni Stefán, sem skráður er einhleypur á Facebook, verði á meðal þeirra sem sæki um. Árni Stefán telur Ásu Ninnu ekki átta sig á vissum staðreyndum þegar komi að eldri karlmönnum á Íslandi. Þeir séu í það minnsta fjórir vinirnir sem séu löngu búnir að missa áhugann á kvenkyns jafnöldrum sínum á Íslandi.

„Steiktin í topp stykkinu þeirra er orðin svo mikil að það er ekki orku eyðandi í svona trip með þeim. Þess vegna sækjum við allir í talsvert yngri dömur,“ segir Árni Stefán.

„Sá galli er á gjöf Njarðar til toppstykkis vorst að það er out hjá yngri íslenskum konum (mínus 15-20 ár miðað við okkur) að það höfðar ekki til þeirra að vera með eldri mönnum. Því erum við lok lok og læs nema t.d. að fara til Filipseyja að ná okkur í kjeddlingu. Þar er þankagangur kvenna í þessum allt annar og eiginlega líka merkilegri heldur en á meðal íslenskra kynsystra þeirra.“

Öfgum og fleirum blöskrar

Hvort þessi skoðun Árna Stefáns sé útbreidd meðal jafnaldra hans skal ósagt látið. Viðbrögðin við færslu hans á Facebook hafa þó verið afar lítil, raunar engin. Skrifin hafa þó ratað út fyrir Facebook-vegg Árna og vekja aktívistasamtökin Öfgar athygli á skrifum hans.

„Ógeðis skrif dagsins,“ segja samtökin á Twitter og deila skoðun Árna. Þorsteinn V. Hermannsson, sem heldur úti Karlmennskunni, er meðal þeirra sem eru undrandi og hneykslaðir á skrifunum.

„Vá!! Alveg grímulaust. Við erum bara komin þangað,“ segir Þorsteinn og vísar líklega til þess að fleiri gætu verið á þessari skoðun án þess að flagga henni. Sem Árni Stefán gerir óhikað.

Raunar segir Árni Stefán að vinur hans hafi hvatt hann til að sækja um í þættinum. En þá reynist Árni Stefán hafa séð úrvalið af konum sem komu fram í þættinum og segir það hafa verið alveg hræðilegt. Að lokum er hann með heilræði um hvað þurfi til að mynda alvöru par.

„Þetta þrennt sem þarf að smella hjá pari til að gera það að alvöru pari er langsótt í svona skemmtiþætti. Kynþokkafull, besti vinur og lover.“

Fjölmargir brugðust við kallinu

Edda Falak, hlaðvarpsstjórnandi og crossfitkempa, sendir Ásu Ninnu skilaboð á Instagram í hæðnistón.

„Úrvalið af kjéddlingum fyrir hann Árna var alveg hræðilegt í síðasta seasoni,“ segir Edda í háði og beinir orðum sínum til þáttarstjórnanda. 

„Farðu nú að átta þig á vissum staðreyndum eldri manna sem langar bara í sexy lover.“

Við þetta má bæta að fjölmargir karlar yfir fertugu eða vinir þeirra hafa svarað kalli Ásu frá því í gær. Fjölgað hefur umtalsvert í hópi 35 ára og eldri sem vilja stíga út fyrir þægindarammann og spreyta sig í Fyrsta blikinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×