Erlent

Umdeildu Alzheimer-lyfi hafnað í Evrópu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aducanumab fær ekki brautargengi í Evrópu.
Aducanumab fær ekki brautargengi í Evrópu. EPA/JAWAD JALALI

Evrópska lyfjastofnunin hefur hafnað því að veita bandaríska lyfjafyrirtækinu Biogen markaðsleyfi fyrir nýju en umdeildu Alzheimer-lyfi sem kom á markaðinn í Bandaríkjunum í sumar.

Lyfið ber heitið Aducanumab og var samþykkt í Bandaríkjunum í sumar. Var það þar með fyrsta nýja lyfið í tuttugu ár sem samþykkt er til notkunar við Alzheimer-sjúkdóminum.

Evrópska lyfjastofnunin hefur hins vegar hafnað því að samþykkja lyfið á Evrópumarkaði. Vísar stofnunin til þess að svo virðist sem að lyfið gagnist ekki fullorðnum einstaklingum með snemmbúin einkenni sjúkdómsins. Ekki væri hægt að fullyrða að gagnsemi lyfsins væri meiri en sú hætta sem kynni af stafa af því.

Það þótti nokkuð umdeilt þegar lyfið var samþykkt í Bandaríkjunum en greint var frá því að læknar og vísindamenn væru óvissir um gagnsemi lyfsins enda hafa lyfjatilraunir ekki skilað afgerandi niðurstöðum um virkni þess.

Í mars 2019 var öllum tilraunum með lyfið Aducanumab hætt þar sem niðurstöður rannsóknar bentu til þess að lyfið gerði ekkert til að koma í veg fyrir Alzheimer.

Vísindamenn lyfjaframleiðandans Biogen ákváðu þá að stækka skammtinn sem veittur var í tilrauninni og fór lyfið þá að gefa góða raun. Fyrirtækið segir lyfið hægja verulega á hrörnun heila þeirra sem þjást af Alzheimers.

Biogen getur áfrýjað ákvörðuninni en óvíst er hvor fyrirtækið muni sækjast eftir því að fá markaðsleyfi í Bretlandi.


Tengdar fréttir

Vonir bundnar við nýtt alzheimer-lyf sem nú er í þróun

Nýtt lyf við alzheimer-sjúkdómnum sem nú er í þróun í Bandaríkjunum gæti orðið algjör bylting að sögn öldrunarlæknis. Lyfið er það fyrsta við sjúkdómnum frá aldamótum sem sótt er um skráningu fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×