Meistararnir höfðu betur í markaveislu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Raheem Sterling skoraði tvívegis í 6-3 sigri Manchester City.
Raheem Sterling skoraði tvívegis í 6-3 sigri Manchester City. Twitter/Premier League

Svo virtist sem Leicester City myndi ekki eiga möguleika gegn Englandsmeisturum Manchester City á Etihad-vellinum í dag. Staðan 4-0 í hálfleik en gestirnir skoruðu þrívegis í síðari hálfleik áður en heimamenn tryggðu sigurinn, lokatölur 6-3 í ótrúlegum leik.

Brendan Rodgers stillti upp heldur óreyndri varnarlínu í dag þar sem miðjumaður og vængmaður voru hluti af fjögurra manna línu gestanna. Það nýttu heimamenn menn sér til hins ítrasta en þeir komust yfir eftir aðeins fimm mínútna leik.

De Bruyne skoraði fyrsta mark Manchester City í dag.EPA-EFE/PETER POWELL

Kevin De Bruyne skoraði þá með vinstri færi eftir fyrirgjöf Fernandinho. Aðeins átta mínútum síðar braut Youri Tielemans á Aymeric Laporte innan vítateigs eftir hornspyrnu og vítaspyrna dæmd.

Riyad Mahrez tók spyrnuna og skoraði af öryggi. Kasper Schmeichel fór í rétt horn en boltinn var við það að rífa netið og Daninn átti aldrei möguleika.

Á 21. mínútu var staðan orðin 3-0 en þá skoraði þýski miðjumaðurinn İlkay Gündoğan eftir snögga sókn heimamanna. Schmeichel kom út í lága fyrirgjöf en komst ekki nálægt boltanum og Þjóðverjinn gat ekki annað en skorað.

Örskömmu síðar fékk Tielemans dæmda á sig aðra vítaspyrnu. Að þessu sinni fór Raheem Sterling á punktinn og skoraði fjórða mark Man City. Eftir þetta róaðist leikurinn töluvert og staðan enn 4-0 er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Heimamenn héldu eflaust að gestirnir myndu leggja árar í bát og halda heim á leið með skottið á milli lappanna, það var heldur betur ekki raunin. Á tíu mínútna kafla í síðari hálfleik skoruðu gestirnir þrjú mörk og minnkuðu muninn í 4-3.

James Maddison minnkaði muninn á 55. mínútu eftir að hann slapp einn í gegnum vörn heimamanna þökk sé sendingu Kelechi Iheanacho. Hann renndi boltanum svo aftur í gegnum vörn Manchester City örskömmu síðar og Ademola Lookman minnkaði muninn í 4-2.

Iheanacho skoraði svo þriðja mark Leicester þegar hann var fyrstur að átta sig á hlutunum eftir að Maddison skaut í slá. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Laporte fimmta mark Man City eftir hornspyrnu Mahrez.

Staðan orðin 5-3 og endurkoma gestanna því í raun til einskis. Heimamenn bættu svo við sjötta marki sínu undir lok leiks þegar hornspyrna Mahrez fór af Ruben Días og féll fyrir fætur Sterling sem gat ekki annað en rennt knettinum yfir línuna. Staðan orðin 6-3 og reyndust það lokatölur leiksins.

Manchester City er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 47 stig. Leicester City er í 10. sæti með 22 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira