Þegar litbrigðin með allri sinni fegurð færast hægt og rólega yfir Ölfusið á notalegri morgunstund og norðurljósin stíga villtan dans að kvöldi, er eins og náttúran minni á fegurðina og alla liti lífsins. Sá margbreytileiki er ekki sjálfgefinn.
Fyrir tæpum tveimur árum knúði alheimsfaraldurinn dyra. Veiran heltók líf okkar og umhverfi. Óvissan var algjör. Heilbrigðisstarfsfólk stóð vaktina af hetjuskap. Skólafólk færði fórnir og hélt samfélagi gangandi.
Við vorum sammála um að verja heilbrigðiskerfið og grunnþjónustu. Þjóðin sýndi þolinmæði og skilning. Á Alþingi lögðumst við öll á eitt. Viðreisn studdi þær ákvarðanir sem þurfti að taka vegna sóttvarna. Auðvitað má taka undir það að í neyð geti þurft að beita áður óþekktum úrræðum.
En eftir því sem tímanum vindur fram og neyðarástandið er orðið langvarandi er hætt við að litaspjaldið dofni. Tónninn verði svarthvítari. Og engan skal undra.
Eftir tvö ár af því sama hefur enn ekki komið fram skýr aðgerðaráætlun eða framtíðarsýn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Lítið hefur verið gert til að ná utan um vandann og gera nauðsynlegar ráðstafanir í heilbrigðiskerfinu. Engin tilraun hefur verið gerð af hálfu stjórnarliða til að lýsa fyrir okkur hvernig ástandið er í raun og veru á spítalanum.
Krafa almennings um aukið frelsi í sóttvörnum er orðin háværari og æ skiljanlegri eftir því sem við kynnumst vágestinum betur. Vísindin, reynslan, aukin þekking og hátt hlutfall bólusettra ættu að gefa stjórnvöldum aukið svigrúm til þess að feta einhvers konar meðalveg milli frelsis og almennrar skynsemi. En það tekst ríkisstjórninni ekki.
Meira að segja fjármálaráðherra kallaði nýlega eftir framtíðarsýn eigin ríkisstjórnar í þessum málum. Málþófið við ríkisstjórnarborðið er orðið pínlegt. Þar munar mestu að ekkert sem hönd á festir hefur verið gert af hálfu stjórnvalda í heilbrigðismálum, þótt fátt annað sé rætt við ríkisstjórnarborðið.
Pólítíkin sett á ís
Faraldurinn hefur dregið fram ákveðið forystuleysi ríkisstjórnar. Allir stjórnarflokkarnir hafa á síðustu níu árum borið ábyrgð á og stjórnað heilbrigðisráðuneytinu. Með þeim afleiðingum að þegar veira herjar á landsmenn verður álag á Landspítalann og starfsfólk þannig að ráðast þarf í víðtækustu skerðingar á athafnafrelsi fólks í lýðveldissögunni.
Tveimur árum eftir komu veirunnar er sagan sú sama. Hjúkrunarrýmum hefur ekki fjölgað svo heitið getur og engin áætlun liggur fyrir hvernig á að fjölga heilbrigðisstarfsfólki eða draga úr álagi á spítalann.
Með öðrum orðum eru engar lausnir á vanda spítalans í sjónmáli. Þeir sem vilja frelsið hafa vanrækt að verja það á síðustu árum. Pólitíkin er sett á ís. Sextíu blaðsíðna stjórnarsáttmáli er síðan látinn fela það sem lítið er.
Vinnumarkaður og ríkisfjármál
Til að hverfa frá kyrrstöðunni þarf að knýja á um breytta stjórnarstefnu. Annars er hætt við því að lítið gerist. Fyrir atvinnulíf og launafólk getur orðið dýrkeypt að bíða. Og loftslagið líka.
Ein stærstu verkefni næsta árs fyrir stjórnvöld og atvinnulíf eru ríkisfjármál og gerð kjarasamninga. Við þurfum skýra vinnumarkaðsstefnu til að ná fram stöðugleika á ný. Þannig tryggjum við hagvöxt til þess að standa undir lífskjörum fólks, byggjum undir samkeppnishæfni lands og treystum grunninn fyrir velferðina.
Grundvöllur kjarasamninga er samkeppnishæfni atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins hafa bent á að raungengi nú sé hærra en þegar uppgangur ferðaþjónustunnar hófst. Hátt raungengi dragi úr samkeppnishæfni útflutningsgreina.
Ragnar Árnason hagfræðiprófessor segir að hagvöxtur byggist á almennri samkeppnishæfni landsins en ekki á væntingum einstakra atvinnugreina. Hann staðhæfir einnig að samkeppnishæfnin hafi gefið eftir. Það er áfellisdómur.
Samkeppnislönd okkar hafa líka glímt við COVID. Góð hagstjórn hefði leitt til sterkari samkeppnisstöðu.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita ekki ríkisfjármálum til þess að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og bættri samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Ríkissjóður var orðinn ósjálfbær fyrir veiru. Það þurfti ekki heimsfaraldur til. Á meðan þýska ríkisstjórnin virkjar fyrri ríkisfjármálareglur sínar þá seinkar okkar ríkisstjórn slíkum ákvörðunum. Ýtir viðfangsefninu og ábyrgðinni yfir á næstu ríkisstjórn. Nema treysta eigi á slembilukkuna.
Agalaus ríkisfjármál
Ríkisfjármál þurfa að fela í sér stefnu og festu. Það verður að auðvelda leiðina að stöðugleika til lengri tíma. Líka ef við ætlum að byggja enn frekar undir vöxt hugvitsdrifinna greina.
Við eigum undir alls kyns fyrirtæki í margs konar starfsemi. Þau leggja sig fram um að selja fjölbreyttar vörur og þjónustu. Skapa dýrmæt störf fyrir þjóðarbúið í grimmri samkeppni í hnattvæddum heimi. Og verða um leið lykilstoð þegar það kemur að því að byggja undir samfélagið okkar. Á varanlegum grunni.
Í öllu þessu leikur stöðugur gjaldmiðill auðvitað lykilhlutverk. Einn minnsti gjaldmiðill í heimi með lítinn fyrirsjáanleika kallar á enn meiri aga við ákvörðun ríkisútgjalda.
Langvarandi hallarekstur ríkissjóðs bitnar á endanum á fólkinu í landinu í formi verðbólgu og vaxtahækkana. Skeytingarleysið eru vond skilaboð inn í yfirvofandi kjaraviðræður.
Aðgerðaáætlun í loftlagsmálum
Samhliða þeim stóru verkefnum sem fylgja ríkisfjármálum og kjarasamningum á nýju ári þarf að vinna strax að metnaðarfullri aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Við eigum að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Taka stór skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga.
Sjálfbær nýting auðlinda okkar er lykilatriði á öllum sviðum og þar leikur hringrásarhagkerfið stórt hlutverk.
Hröð orkuskipti eru hér nauðsynleg. Til að stuðla að þeim þarf að tryggja nægilegt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði.
Ólík afstaða jaðarflokkanna í ríkisstjórn má ekki verða til þess að pottlok verði sett á brýnar ákvarðanir sem taka þarf í þessum efnum.
Andleg líðan og skrípaleikur
Það hefur verið kúnstugt að fylgjast með samningaviðræðum stjórnarandstöðu við ríkisstjórnina um að viðurkenna í raun að andleg líðan sé jafngild þeirri líkamlegu.
Ég leyfi mér að trúa því að við viljum búa í samfélagi þar sem við hlúum hvert að öðru. Þar sem farið er í forvirkar aðgerðir til þess að tryggja að fólk fái aðstoð við að glíma við langtímaafleiðingar áfalla eða erfiðra tímabila í lífinu. Öll eigum við slík tímabil. Mislöng og misþungbær. Það er lífsins gangur. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er hér lykilatriði. Að við föðmum fólkið okkar og nýtum samneysluna til að tryggja að hægt sé að ráðast að rótum vandans sem fyrst.
Talið er að áföll barna í æsku kosti ríkið um 100 milljarða á ári. Þær upphæðir sem þarf í forvirkar aðgerðir vegna andlegrar líðan eru aðeins brotabrot af þeim kostnaði sem hlýst af því að gera ekki neitt. En það er kallað skrípaleikur af ráðherra í ríkisstjórn.
Unga fólkið okkar heldur okkur hins vegar við efnið og krefst þess að við hugsum hlutina upp á nýtt. Fólk af minni kynslóð skuldar þeim að hlusta, skilja og skynja. Átta okkur á því að samfélagið og kröfur þess breytast.
Tækifæri til að gera betur
Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri til að gera betur. Á svo mörgum sviðum. Læra af fortíðinni og koma á alvöru velsældarsamfélagi. Með því að taka opið samtal og koma á raunverulegum aðgerðum í átt að auknum efnahagslegum stöðugleika, samhliða umhverfislegu öryggi og félagslegu réttlæti. Þar sem litaspjald lífsins verður inn á hverju heimili, hverju fyrirtæki – hvar sem er samfélaginu.
Landsmönnum öllum óska ég friðar og farsældar á komandi ári, með þökk fyrir það liðna.
Höfundur er formaður Viðreisnar.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.