Þetta sýnir nýr listi yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins í árslok 2021 en eignarhlutur þjóðarsjóðsins nemur 20 milljónum hluta að nafnvirði, eða sem jafngildir tæplega 0,6 prósentum af útgefnu hlutafé Eikar.
Hlutabréfaverð fasteignafélagsins, sem hefur hækkað um nærri 9 prósent á undanförnum einum mánuði, stóð í 12,7 krónum á hlut við lokun markaða í dag. Markaðsvirði eignarhlutar þjóðarsjóðs Kúveit er því nú rúmlega 250 milljónir króna.
Þjóðarsjóði Kúveit (e. Kuwait Investment Authority) var komið á fót árið 1953 og er hann sá elsti sinnar tegundar sem er starfræktur í heiminum. Eignir sjóðsins nema samtals á sjötta hundrað milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir meira en tuttugufaldri landsframleiðslu Íslands.
Sjóðurinn hefur á undanförnum mánuðum verið að auka við fjárfestingar sínar í skráðum félögum í Kauphöllinni. Í síðasta mánuði upplýsti Innherji um að hann hefði bætt verulega við hlut sinn í Arion banka og næmi markaðsvirði bréfa sjóðsins í bankanum nú um tveimur milljörðum króna.
Ísland var formlega tekið inn í vaxtamarkaðsvísitölu MSCI undir lok maí á liðnu ári ári og í kjölfarið fór að bera á talsverðu innflæði á hlutabréfamarkaðinn, einkum í bréf Arion og Marel.
Í byrjun desember fengu íslensku kauphallarfélögin enn meiri vigt í vísitölunni en áður og ný félög – Íslandsbanki og Síldarvinnslan – bættust sömuleiðis við. Þannig er Arion orðið tuttugasta stærsta félagið í vísitölunni með 1,5 prósenta vigt.
Stærsti hluthafi Eikar er eignarhaldsfélagið Brimgarðar, bæði í gegnum eigið félag og framvirka samninga, með vel yfir fjórðungshlut í fasteignafélaginu. Aðrir helstu hluthafar Eikar eru Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Almenni lífeyrissjóðurinn og Birta.
Hlutabréf Eikar hækkuðu um liðlega 33 prósent á síðasta ári og stendur markaðsvirði félagsins í dag í 43 milljörðum króna.