Enski boltinn

Æfingasvæði Liverpool opnað að nýju

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp og Peter Krawietz á æfingu Liverpool fyrr í vetur. Krawietz stýrir æfingum í dag og á morgun en mögulega nær Klopp bikarleiknum á sunnudag.
Jürgen Klopp og Peter Krawietz á æfingu Liverpool fyrr í vetur. Krawietz stýrir æfingum í dag og á morgun en mögulega nær Klopp bikarleiknum á sunnudag. Getty/Andrew Powell

Liverpool-menn, það er að segja þeir sem ekki eru í einangrun, gátu snúið aftur til æfinga í dag til undirbúnings fyrir bikarleikinn gegn Shrewsbury Town á sunnudaginn.

Liverpool ákvað að loka AXA æfingasvæði sínu í Kirkby á miðvikudaginn, í samráði við heilbrigðisyfirvöld, vegna hópsmits sem meðal annars náði til knattspyrnustjórans Jürgens Klopp og síðar aðstoðarstjórans Pepijn Lijnders, auk leikmanna.

Liverpool fékk leik sínum við Arsenal í undanúrslitum deildabikarsins, sem fara átti fram í gærkvöld, frestað vegna málsins.

Nú þegar búið er að opna æfingasvæðið að nýju stendur hins vegar til að Liverpool spili bikarleik sinn við C-deildarlið Shrewsbury á sunnudag.

Krawietz æðsti stjórnandi

Klopp og Lijnders eru hins vegar báðir enn í einangrun og því ekki viðstaddir æfingu Liverpool í dag. Aðstoðarstjórinn Peter Krawietz, náinn aðstoðarmaður Klopps til margra ára, stýrir því æfingum og situr fyrir svörum á blaðamannafundi á morgun.

Lijnders stýrði Liverpool í 2-2 jafnteflinu við Chelsea síðasta sunnudag, áður en hann greindist sjálfur með smit, en Klopp verður mögulega laus úr einangrun fyrir bikarleikinn á sunnudaginn.

Leikur Liverpool og Shrewsbury hefst klukkan 14 á sunnudag, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×