Enski boltinn

Bowen skaut West Ham upp í fjórða sætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jarrod Bowen og Declan Rice fagna marki þess fyrrnefnda.
Jarrod Bowen og Declan Rice fagna marki þess fyrrnefnda. Alex Pantling/Getty Images

West Ham United vann 2-0 sigur á Norwich City í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Sigurinn þýðir að West Ham lyfti sér upp fyrir Arsenal í 4. sæti deildarinnar.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af fyrri hálfleik en þegar rúmur hálftími var liðinn kom Jarrod Bowen heimamönnum í West Ham yfir. Markið var hins vegar dæmt af þar sem Nikola Vlašić var dæmdur rangstæður í aðdraganda marksins.

Það kom ekki að sök en á 42. mínútu skoraði Bowen aftur og að þessu sinni stóð markið. Hann flikkaði þá fyrirgjöf Vladimír Coufal í netið og staðan 1-0 í hálfleik. Það voru aðeins sjö mínútur til leiksloka þegar Bowen gulltryggði sigur West Ham, að þessu sinni eftir fyrirgjöf frá Arthur Masuaku á vinstri vængnum.

Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur. Sigurinn var síst of stór og Bowen hefði á öðrum degi eflaust skorað þrennu og tryggt sér keppnisboltann. Hann skaut tvívegis í marksúlurnar ásamt því að mark var dæmt af honum. Þá brenndi Michail Antonio af í dauðafæri.

West Ham er nú með 37 stig í 4. sæti deildarinnar á meðan Norwich situr sem fastast á botninum með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×