Enski boltinn

New­cast­le að sækja þýskan lands­liðs­mann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Robin Gosens á EM síðasta sumar.
Robin Gosens á EM síðasta sumar. Federico Gambarini/DPA

Hið nýríka knattspyrnu Newcastle United er í þann mund að festa kaup á sínum þriðja leikmanni í janúarfélagaskiptaglugganum. Vinstri bakvörðurinn Robin Gosens ku vera á leið til félagsins frá Atalanta á Ítalíu.

Newcastle er í fallsæti en nýir eigendur félagsins hafa lítinn áhuga á því að sjá liðið í Championship-deildinni á næstu leiktíð.

Félagið hefur nú þegar fest kaup á hægri bakverðinum Kieran Trippier og framherjanum Chris Wood. Svo virðist sem vinstri bakvörðurinn Gosens sé næstu á lista.

Samkvæmt Sky Italia fær Gosens þriggja ára samning í Norður-Englandi en Newcastle á aðeins eftir að semja við Atalanta um kaupverð leikmannsins. Kaup og kjör Gosens eru þegar klár.

Gosens hefur verið lykilmaður í liði Atalanta undanfarin ár en að mestu leikið sem vængbakvörður. Hinn 27 ára gamli Gosens lék með Þýskalandi á Evrópumótinu síðasta sumar en alls á hann að baki 13 A-landsleiki.

Hann hefur hins vegar verið að glíma við meiðsli aftan í læri og hefur ekkert spilað síðan í september á síðasta ári.

Newcastle gerði 1-1 jafntefli við Watford um helgina og situr sem stendur í 18. sæti með 12 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×