Enski boltinn

Finnst ó­þægi­legt að spila við Brent­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp fagnar.
Klopp fagnar. EPA-EFE/Chris Brunskill

„Það er mjög óþægilegt að spila á móti Brentford ef ég er hreinskilinn. Þeir spila oftast öðruvísi en hvernig þeir spiluðu gegn okkur í dag gerði okkur erfitt fyrir,“ sagði Jürgen Klopp eftir 3-0 sigur sinna manna á Brentford í ensku úrvalsdeildinni.

„Það voru mörg augnablik þar sem boltinn var í loftinu og um leið og hann lenti á jörðinni þurftum við að spila fótbolta. Það var ekki mikið flæði en það getur verið þannig, föst leikatriði geta verið leiðin til að opna slíka leiki og það var niðurstaðan í dag. Við hefðum átt að vera búnir að skora áður en næstu tvö mörk voru framúrskarandi.“

„Því miður sneri Alex Oxlade-Chamberlain upp á ökklann á sér. Vonandi er það ekkert alvarlegt en það varpaði skugga á leikinn.“

„Föstu leikatriðin okkar voru mjög góð í dag. Þú þarft að vera þolinmóður. Þú mátt ekki missa einbeitingu eða verða kærulaus. Við þurftum að skipta boltanum hratt milli kanta og spila hratt upp völlinn. Við stýrðum síðari hálfleik frá A til Ö, það er jákvætt.“

„Þeir breyttu um leikstíl og tóku meiri áhættur eftir að við komumst yfir. Þeir voru með fleiri leikmenn milli línanna. Við lentum tvívegis í aðstæðum sem við áttum erfitt með, þannig er það stundum. Þú verður að aðlagast, sem við og gerðum og eftir það stýrðum við leiknum. Strákarnir lögðu hart að sér og það er það sem þú þarft að gera. Við verðum að sækja til sigurs og þeir gerðu það,“ sagði Klopp að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×