Innlent

Um þriðjungur Co­vid-smitaðra á Land­spítala ekki inni vegna Co­vid

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
17 eru með virkt smit á spítalanum og liggja þar inni beinlínis vegna Covid-veikinda sinna. Þá eru þar 14 sem hafa lokið einangrun en eru enn að ná sér eftir mikil veikindi. 
17 eru með virkt smit á spítalanum og liggja þar inni beinlínis vegna Covid-veikinda sinna. Þá eru þar 14 sem hafa lokið einangrun en eru enn að ná sér eftir mikil veikindi.  vísir/vilhelm

Um þriðjungur þeirra sem liggja inni á Land­spítala í einangrun með Co­vid-19 eru þar vegna annarra veikinda eða meiðsla. Nýtt spá­líkan er væntan­legt frá spítalanum sem gæti orðið til þess að sótt­varna­læknir endur­skoði sam­komu­tak­markanir.

Síðustu daga hafa rúm­lega 40 legið inni á Land­spítala með Co­vid-19. Sá fjöldi hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu vikuna.

Margir sjúk­linganna eru þó annað hvort búnir að af­plána ein­angrun sína eða liggja hrein­lega inni á spítalanum vegna annarra kvilla.

Af þeim 45 sem lágu inni á spítalanum í morgun voru að­eins 31 með virkt smit en 14 sem höfðu lokið ein­angrun og voru enn að jafna sig á sýkingunni.

10 liggja þar smitaðir inni annarra veikinda en Co­vid og fjórir eru þar sem erfitt er að greina hvort séu bein­línis veikir vegna veirunnar eða af öðrum á­stæðum.

17 liggja svo inni á spítalanum með virkt smit, bein­línis vegna Co­vid-veikinda sinna.

7 eru á gjör­gæslu, þar af 2 í öndunar­vél. Fimm þeirra hafa þegar lokið ein­angrun sinni.

Gildi einu hvort sjúklingur í einangrun sé Covid-veikur eða ekki

„Við erum að reyna að finna bestu leið til að setja fram upp­lýsingarnar þannig þær gagnist og það er auð­vitað aðal­til­gangur þeirra að vera gagn­legar til á­kvarðana­töku,“ segir Hildur Helga­dóttir, verk­efna­stjóri far­sótta­nefndar Land­spítala.

Hún segir þó í raun gilda einu fyrir spítalann hvort sjúk­lingur sem liggi þar inni sé þar vegna Co­vid-veikinda sinna eða af öðrum á­stæðum ef hann er á annað borð smitaður.

Hildur Helgadóttir er verkefnastjóri farsóttanefndar Landspítala.vísir/sigurjón

„Nú er fólk bara að koma inn á bráða­mót­töku út af alls konar málum allan sólar­hringinn og er síðan að greinast við inn­lögn eða skömmu eftir inn­lögn. Það er þá á alls konar deildum sem hafa aldrei þurft að sýsla með Co­vid-sjúk­linga sem þurfa þá að gera það. Og það er mjög mikið auka­á­lag,“ segir Hildur.

Þannig þurfi tvö­faldan fjölda starfs­manna til að sinna fólki í ein­angrun á spítalanum og það geti verið enn erfiðara að sinna þeim vanda­málum sem ollu innlögn þeirra þegar spítala­starfs­menn verði að sinna þeim í þar til gerðum hlífðar­fatnaði og passa vel að smit berist ekki frá sjúk­lingnum annað á spítalann.

Geti ekki byggt tillögur á orðrómi

Sótt­varna­læknir segir að hann sé enn að átta sig á mis­ræminu í tölum spítalans og eigi eftir að fá betri mynd af hversu al­var­legt ó­míkron-af­brigðið sé í raun.

„Það er það sem við erum að skoða. Og ég get ekki svarað því fyrr en ég fæ þessar tölur frá spítalanum. Það er svona ýmiss orð­rómur í gangi en það er bara ekki nægi­legt til að fara eitt­hvað að ræða um á­ætlanir og á­form sem að byggja á því,“ segir Þór­ólfur Guðna­son.

Þórólfur Guðnason segir að þrettán hafi nú greinst með hið svokallaða omíkron-afbrigði kórónuveirunnar hér á landi.Vísir/Vilhelm

Hann tekur mið af tölum og spám spítalans þegar hann semur til­lögur sínar að sótt­varna­tak­mörkunum.

Inn­lagna­hlut­fall á spítala og gjör­gæslu hefur farið niður á við síðustu vikur og er von á nýju spá­líkani frá spítalanum í kvöld eða á morgun.

Og sýni það mun skárri spá en síðasta líkan gæti Þór­ólfur lagt til að slakað yrði á tak­mörkunum á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Getur enn ekki sagt til um hversu alvarlegt ómíkron sé

Allt bendir til að ómíkron-afbrigði veirunnar sé talsvert vægara en menn hafa reiknað með. Gjörgæsluinnlögnum fækkar dag frá degi á meðan fjöldi smitaðra stendur í stað. Sóttvarnalæknir vill þó enn stíga varlega til jarðar og segist ekki hafa nægar upplýsingar frá Landspítalanum um alvarleika veikinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×