Enski boltinn

Bruno ó­sáttur með að þéna ekki jafn mikið og launa­hæstu leik­menn Man Utd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Samkvæmt The Athletic þénar Ronaldo fjórfalt meira en Fernandes.
Samkvæmt The Athletic þénar Ronaldo fjórfalt meira en Fernandes. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Bruno Fernandes hefur neitað að skrifa undir nýjan samning við Manchester United þar sem hann er ósáttur með að samningurinn gefi honum ekki hærri laun en raun ber vitni.

Samkvæmt The Athletic fær Bruno tæp 100 þúsund pund á viku frá Manchester United. Hann var á 50 þúsund pundum er hann var leikmaður Sporting Lissabon og því nokkuð sáttur að tvöfalda laun sín er hann færði sig um set til Englands árið 2020.

Ofan á 100 þúsund pundin á viku fær Bruno bónusgreiðslur fyrir árangur Manchester United í Meistaradeild Evrópu. 

Í nóvember á síðasta ári hóf félagið viðræður við Bruno um nýjan samning en Portúgalinn er ekki sáttur þar sem hann telur samninginn ekki endurspegla mikilvægi hans í liðinu. 

Frá því Fernandes var keyptur til Manchester-borgar í janúar 2020 hafa aðeins Mohamed Salah og Harry Kane skorað fleiri mörk í ensku úrvalsdeildinni. Alls hefur Fernandes skorað 33 mörk og lagt upp 23 til viðbótar í þeim 70 leikjum sem hann hefur spilað.

Ekki kemur fram í frétt The Athletic hversu háa upphæð er um að ræða en ljóst er að hann er ekki á pari við launahæstu leikmenn félagsins. Cristiano Ronaldo er með 400 þúsund pund á viku, David De Gea kemur þar á eftir með 375 þúsund.

Þeir Paul Pogba, Raphaël Varane, Anthony Martial, Jadon Sancho, Edinson Cavani og Marcus Rashford eru allir með í kringum 200 þúsund pund á viku. Harry Maguire og Luke Shaw koma skammt þar á eftir.

Forráðamenn Man Utd eru enn rólegir yfir stöðu mála þar sem Feranndes er samningsbundinn til ársins 2025 og meira að segja þá getur félagið framlengt samning hans um eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×