Enski boltinn

Harder sökkti West Ham og María lék allan leikinn er Man Utd komst í undan­úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester United vann 1-0 útisigur á Arsenal og er komið í undanúrslit.
Manchester United vann 1-0 útisigur á Arsenal og er komið í undanúrslit. Twitter/@ManUtdWomen

Átta liða úrslit deildarbikars kvenna í knattspyrnu á Englandi fóru fram í kvöld. Dagný Brynjarsdóttir lék sjötíu mínútur er West Ham United tapaði 4-2 á heimavelli gegn Englandsmeisturum Chelsea.

Dagný var í byrjunarliði West Ham sem átti við ofurefli að etja í kvöld. Pernille Harder kom Chelsea yfir um miðbik fyrri hálfleiks en Katerina Svitkova jafnaði metin fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan jöfn 1-1 er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Í þeim síðari tóku Englands-, bikar- og deildarbikarmeistarar Chelsea öll völd á vellinum. Erin Cuthbert kom gestunum í 2-1 áður en Harder bætti við tveimur mörkum og fullkomnaði þar með þrennu sína. Þetta var hennar 50. leikur fyrir félagið og hún fagnaði því með stæl.

Staðan var því orðin 4-1 gestunum í vil þegar hin unga Halle Houssein minnkaði muninn undir lok leiks fyrir West Ham. Lokatölur 4-2 og Chelsea getur enn varið titil sinn. Dagný var tekin af velli þegar 20 mínútur lifðu leiks.

Manchester United gerði sér lítið fyrir og vann 1-0 útisigur á Arsenal í kvöld. Markið kom undir lok leiks það gerði Alessia Russo eftir undirbúning Katie Zelem. María Þórisdóttir lék allan leikinn í hjarta varnar Man United.

Þá vann Manchester City 3-1 sigur á Bristol City og Tottenham Hotspur vann Liverpool 1-0. Það verða því fjögur stórlið í undanúrslitum keppninnar; Chelsea, Tottenham og Manchester-liðin tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×