Enski boltinn

Spilar í utan­deildinni en á­kvað samt að neita til­boði Totten­ham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antonio Conte hefur átt betri félagaskiptaglugga.
Antonio Conte hefur átt betri félagaskiptaglugga. Robin Jones/Getty Images

Það hefur hvorki gengið né rekið hjá enska knattspyrnufélaginu Tottenham Hotspur í félagaskiptaglugganum til þessa. 

Eftir mikil vonbrigði stefndi félagið á að sækja Ollie Tanner frá Lewes sem leikur í Isthmian-deildinni, hann ákvað hins vegar að færa sig ekki um set.

Tottenham var með miklar væntingar er félagaskiptaglugginn hófst. Luis Díaz var á leiðinni frá Porto og þá var stefnt á að sækja Adama Traoré frá Úlfunum. Það fór svo að Díaz náði samkomulagi við Liverpool og þá er Traoré farinn til Barcelona.

Í von sinni um að næla allavega í einn leikmann ákvað Tottenam að bjóða í Olle Tanner sem leikur með Lewes í Isthmian-deildinni en það er 7. efsta deild enska knattspyrnupýramídans.

Nú hefur Lewes staðfest að félagið hafi náð samkomulagi við félag úr ensku úrvalsdeildinni en Tanner hafi ekki náð samkomulagi við úrvalsdeildarfélagið og því verði ekkert úr vistaskiptunum.

Það má því með sanni segja að það hafi ekkert gengið upp hjá Tottenham í félagaskiptaglugganum til þessa. Antonio Conte hefur helgina til að styrkja leikmannahóp sinn, nú er bara að bíða og sjá hvað gerist.

Tottenham er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 36 stig eftir 20 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×