Enski boltinn

Palace fyrst allra fé­laga til að bjóða leikmönnum að­stoð eftir að samingar þeirra renna út

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Crystal Palace hugsar vel um sína.
Crystal Palace hugsar vel um sína. Marc Atkins/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Crystal Palace hefur ákveðið að setja í gang áætlun þar sem fyrrverandi leikmenn félagsins fá aðstoð í allt að þrjú ár eftir að félagið ákveður að það hefur ekki not fyrir þá lengur.

Mikil umræða hefur myndast á Englandi að knattspyrnufélög þar í landi þurfi að styðja betur við þá ungu leikmenn sem þau losa sig við. 

Margir hverjir leggja allt undir í þeirri von um að ná árangri á sviði knattspyrnunnar og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga þegar félög á borð við Crystal Palace ákveða að gefa þeim ekki áframhaldandi samning.

Palace er fyrsta lið ensku úrvalsdeildarinnar til að setja á fót áætlun sem á að hjálpa leikmönnum á aldrinum 17 til 22 ára að fóta sig í hinum harða heimi eftir að félagið ákveður að þeir séu ekki í framtíðaráformum þess.

Gary Issott, yfirmaður akademíunnar hjá Palace, ræddi þessa nýju áætlun og vitnar í eigin reynslu frá því hann lék með Luton Town á síðustu öld. Issott átti erfitt með að sætta sig við að vera ekki lengur á mála hjá liði á borð við Luton ásamt því að hann saknaði fótboltans og vina sinna.

Issott segir að formaður Palace, Steve Parish, hafi stutt hugmyndina og félagið ætli sér að styðja við alla akademíu leikmenn sína, sama hvort þeir komist upp í aðallið félagsins eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×