Frítíminn

Bankið í ofninum: Sér ökumaður betur frá sér í björtu með kveikt ljós?

Pétur Blöndal skrifar
Pétur Blöndal
Pétur Blöndal

„Náði!“ Þannig hljóðuðu símaskilaboð frá syni mínum í lok janúar. Hann hafði sumsé lokið ökuprófi.

Ætli megi ekki segja að það sé sameiginlegur reynsluheimur okkur flestra að ganga í gegnum þennan hreinsunareld. En það er fróðlegt að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvaða kröfur eru gerðar til ungra og upprennandi bílstjóra.

Verklega námið hlýtur nú að teljast mikilvægast þegar kemur að því að keyra bíl. Enda felst það einmitt í því að keyra bíl. Það er víst stór hluti af dæminu við þessi ökuréttindi. Hinsvegar virðist það vera bóklega námið sem fyrst og fremst þvælist fyrir verðandi bílstjórum. Víkjum að því ögn síðar.

Próf á sjálfskipta bíla

En fyrst þetta. Í umferðarfréttum er það helst að frá árslokum 2017 hefur verið boðið upp á að taka einungis réttindi á sjálfskipta bifreið. En þá er ökumanninum óheimilt að aka beinskiptri bifreið!

Efalaust léttir það undir með sumum að geta tekið ökupróf á sjálfskipta bifreið, margs konar ástæður kunna að vera fyrir því, en sú spurning hlýtur að vera áleitin, hvers vegna þeim er síðan óheimilt að aka beinskiptum bifreiðum!? Felst einhver hætta í því, önnur en vandræðaleg augnablik þegar viðkomandi tekst ekki að taka af stað á gatnamótum og kúplingin snuðar? Ííííík. Það hefur gjarnan í för með sér að bíllinn drepur á sér og megnan gúmmífnyk leggur yfir bílinn.

Og er ekki of mikið að senda fólk aftur í ökupróf bara til að forðast vandræðaleg augnablik? Þetta snýst nú bara um að ýta á kúplinguna og hreyfa gírstöngina. Það tekur nokkrar mínútur að læra það. Nokkur skipti að ná valdi á því.

Tugþúsundir falla á bílprófi

En það er bóklega námið sem vekur meiri spurningar. Ekki síst þegar fréttist, að það sé alvanalegt að sautján ára og eldri séu unnvörpum að falla á bóklega prófinu. Þegar ég skoðaði málið, þá fékk ég þær upplýsingar hjá Samgöngustofu að 40-50 prósent falli að jafnaði á bóklega prófinu. Alls tóku 5.380 ökupróf árið 2020 og má því reikna með að á bilinu 2.000 til 2.700 manns hafi fallið. Á tíu árum eru það á bilinu 20 til 27 þúsund manns!

Felst einhver hætta í því, önnur en vandræðaleg augnablik þegar viðkomandi tekst ekki að taka af stað á gatnamótum og kúplingin snuðar? Ííííík. Það hefur gjarnan í för með sér að bíllinn drepur á sér og megnan gúmmífnyk leggur yfir bílinn.

Ég hef heyrt nokkur dæmi um úrvalsnemendur sem falla oftar en einu sinni – krakkar sem annars hafa aldrei fallið á prófi. Það er raunar svo alvanalegt að falla á prófinu, að það þykir ekki fréttnæmt í hópi framhaldsskólanema. Ég verð bara að segja, að ég hef skilning á því að það sé há fallprósenta í inntökuprófi í læknisfræði – en þó fer það í taugarnar á mér. En er í alvöru svona flókið að lesa á skilti?

Og það er ansi forvitnilegt að skoða dæmi um ökupróf á vef Samgöngustofu og uppgötva að þau snúast bara að hluta um hvað þarf til að aka bíl.

Ég verð bara að segja, að ég hef skilning á því að það sé há fallprósenta í inntökuprófi í læknisfræði – en þó fer það í taugarnar á mér. En er í alvöru svona flókið að lesa á skilti?

Fall í einni spurningu falið

Þetta er krossapróf með þremur valmöguleikum. Hver og einn valkostur er eitt stig og þrjú stig undir í hverri spurningu. En til þess að standast A-hlutann má einungis fá tvær villur. Það er því beinlínis hægt að falla á prófinu í einni spurningu. Þegar B-hlutinn er tekinn með, mega villurnar vera sjö samtals.

Ég heyrði í vikunni af nemanda sem fannst tveir valmöguleikar koma til greina í svari við spurningu. Og krossaði við báða vegna þess að þá fengi hann allavega bara eina villu, en ef hann giskaði bara á annan krossinn og það væri rangt, þá gætu villurnar verið tvær – rangi krossinn og auði kassinn við rétta svarið.

Jæja. Þarna er þetta eiginlega strax orðið of flókið fyrir stuttan pistil. En þetta er það sem unga fólkið þarf að ganga í gegnum. Þannig að við höldum áfram.

Það verður að segjast, að stundum er reynt að flækja hlutina óþarflega mikið, eins og lagt sé upp með að rugla unga fólkið í ríminu. Margar spurningar á prófinu hafa lítið sem ekkert með ökuhæfni að gera. Spurt er um ökuljós og dagljósabúnað og þar er einn valkosturinn: „Ökumaður sér betur frá sér í björtu með kveikt ljós.“

Tjah, ég hef nú aldrei gert rannsóknir á þessu sjálfur, en myndi halda að það komi út á eitt. En skiptir það einhvern í úniversinu nokkru máli að þekkja svarið við þessari spurningu?!

Það verður að segjast, að stundum er reynt að flækja hlutina óþarflega mikið, eins og lagt sé upp með að rugla unga fólkið í ríminu.

Spurt um Samgöngustofu

Önnur spurning varðar það, hvort framrúðutrygging er skyldutrygging eða ekki. Er maður þá óökuhæfur ef maður þekkir ekki skilmála tryggingarfélaganna? Ungir ökumenn eru flestir á bíl foreldra sinna – og aðrir kaupa sér aldrei bíl, þó að þeir taki kjósi að taka bílprófið. Hvað varðar þá um framrúðutryggingar?

Uppáhaldsspurningin mín er eiginlega: „Samgöngustofa annast margt sem tengist umferðinni og má þar nefna...“ Svo koma valkostirnir:

Umsjón með ökunámi og ökuprófum

Merkingu og viðhald þjóðvega um landið

Eigendaskipti á ökutækjum

Allt eru þetta krossar sem geta fellt ungt fólk á ökuprófi.

Hvað er réttlætanlegt?

Nú er ég ekki að segja, að þróunin hafi verið alslæm. Þegar ég tók bílpróf var æfingaakstur með foreldrum ekki í boði og ekki heldur að spreyta sig á akstri í hálku á æfingasvæði. En sú hugsun læðist að mér að í bóklega hlutanum sé farið illa með tíma fólks og fjármuni. Hjá Samgöngustofu fást þær upplýsingar að fallprósentan sé svipuð í nágrannalöndum, spurt sé út úr námsskránni og hún samþykkt af ráðherra. En ef prófið er ósanngjarnt, þá hlýtur það engu að síður að kalla á uppstokkun á þessu kerfi.

Þegar ég tók bílpróf var æfingaakstur með foreldrum ekki í boði og ekki heldur að spreyta sig á akstri í hálku á æfingasvæði. En sú hugsun læðist að mér að í bóklega hlutanum sé farið illa með tíma fólks og fjármuni.

Hvenær er til dæmis „réttlætanlegt“ að gefa hljóðmerki? Til þess að svara þeirri spurningu, sem kemur fyrir í æfingaprófinu á vef Samgöngustofu, þurfum við eiginlega að byrja á að skilgreina hugtakið sjálft, hvað þýðir að eitthvað sé „réttlætanlegt“. En engin tilraun er gerð til þess á ökuprófinu. Það eru bara gefnir þrír valmöguleikar:

Þegar vara þarf aðra ökumenn við aðsteðjandi hættu.

Þegar vekja þarf athygli annarra vegfarenda á villum sem þeir gera í umferðinni.

Þar sem börn eru að leik nálægt vegi.

Dæmi nú hver fyrir sig hvað er réttlætanlegt. En svona ef ske kynni að lesendur þessa pistils séu í vafa, þá er Samgöngustofa með svarið. Það er sumsé einungis fyrsti kosturinn, að vara aðra ökumenn við aðsteðjandi hættu. Ekki ef börn eru að leik nálægt vegi eða öðrum bílstjórum verður á. „Meginreglan“ ku nefnilega vera sú að nota ekki hljóðmerki í þéttbýli nema til að vara við hættum.

En meginregla útilokar bara alls ekki að hinir tveir kostirnir geti verið réttlætanlegir, að minnsta kosti í tilteknum aðstæðum. Mér sýnist fullljóst að heimspekimenntað fólk geti átt erfitt með að ná bílprófinu, því það þyrfti langa útleggingu til að útfæra hvað væri réttlætanlegt og í hvaða aðstæðum og ólíklegt að það myndi skila afgerandi niðurstöðu.

Þetta er nú það, sem unga fólkið þarf að svara í ökuprófum. Kannski engin furða að nokkrar tilraunir þurfi til.

„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í Fóstbræðrum og fórnaði höndum. Í þessum vikulegu pistlum á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér að „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

Pétur Blöndal p.blondal@gmail.com.






×