Enski boltinn

„For­eldrar, ömmur og afar munu segja frá því þegar West Ham mætti á Agg­bor­ough“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Declan Rice og félagar mæta Kidderminster Harriers í dag.
Declan Rice og félagar mæta Kidderminster Harriers í dag. EPA-EFE/Peter Powell

Það er góð og gild ástæða fyrir því að oft er talað um „töfra FA-bikarsins.“ Segja má að leikur Kidderminster Harriers og West Ham United sem fram fer í dag sé hluti af þeim töfrum.

Enska bikarkeppnin er sú elsta í sögunni og enn í miklum metum, sérstaklega hjá liðum sem flokkast ekki undir elítuna á Englandi.

Reikna má með að leikur West Ham United og Kidderminster Harriers verði leikur kattarins að músinni enda leika heimamenn í F-deild enskrar knattspyrnu á meðan West Ham er í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. En eins og við vitum þá hefur Davíð komið Golíat á óvart í gegnum tíðina.

Kidderminster Harriers er lítið félag en á sér þó ríka sögu enda stofnað árið 1886. Liðið hefur áður tekið á móti West Ham í bikarnum og þá mættu 8000 manns á völlinn. Er það töluvert yfir sætafjölda en samkvæmt Wikipedia-síðu Kidderminster tekur Aggborough-völlurinn aðeins rúmlega 3000 manns í sæti og annan eins fjölda standandi. 

Richard Lane, formaður Kidderminster, vonast til að nálægð áhorfenda á Aggborough muni hjálpa sínum mönnum í dag.

„Að hafa alla áhorfendur svo nálægt vellinum sjálfum mun vonandi hræða leikmenn West Ham að einhverju leyti. Ef þú setur alla litlu hlutina saman þá eigum við möguleika,“ sagði Lane í skemmtilegu innslagi breska ríkisútvarpsins fyrir leik.

Klukkan 12.20 hefst útsending frá leik Kidderminster og West Ham í 4. umferð FA-bikarsins í knattspyrnu á Stöð 2 Sport 3.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×