Innherji

Dagur segir hvergi hafa borið skugga á meirihlutasamstarfið en Viðreisn heldur öllu opnu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Dagur B Eggertsson borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata og Líf Magneudóttir, oddviti VG. Þau gefa öll kost á sér aftur til að leiða flokka sína í sveitarstjórnarkosningum í maí.
Dagur B Eggertsson borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata og Líf Magneudóttir, oddviti VG. Þau gefa öll kost á sér aftur til að leiða flokka sína í sveitarstjórnarkosningum í maí.

Oddvitar þeirra fjögurra flokka sem mynda meirihluta í borginni, Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata segja samstarfið hafa gengið vel og myndu vilja halda því áfram. Oddviti Viðreisnar ítrekar að samstarfið sé gott en er sá oddviti sem sker sig úr um að leggja áherslu á að flokkurinn gangi óbundinn til kosninga. 

Borgarstjóri segir ekki óeðlilegt að þeir flokkar sem nú mynda meirihluta í borginni ræði saman að afloknum sveitarstjórnarkosningum í maí fái þeir stuðning til þess í kosningunum. Kosningarnar muni snúast um hvort Reykjavík sé á réttri leið. Hins vegar sé mörgum spurningum um mannval og málefni annarra flokka en þeirra sem mynda meirihlutann enn ósvarað.

Oddviti Viðreisnar segir flokkinn ganga óbundinn til kosninga, en segir það þó pólítíska venju að meirihlutaflokkar ræði saman eftir að niðurstöður kosninga liggja fyrir. Viðreisn muni hins vegar halda öllum kostum opnum á þeirri vegferð.

Oddvitar Vinstri grænna og Pírata eru ánægðir með meirihlutasamstarfið og vilja samstarf með flokkum sem halda áfram á sömu leið og verið hefur.

Dagur B. Eggertsson sækist nú eftir að verða borgarstjóri, þriðja kjörtímabilið í röð. Hann hefur verið viðloðandi borgarmálin síðastliðna tvo áratugi.

Kosið verði um hvort Reykjavík sé á réttri leið

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir flokkana sem mynda meirihlutann ólíka en hafa sameiginlega sýn á þróun borgarinnar, skipulags- og samgöngumál.

„Þau mál sem gera má ráð fyrir að verði lykilatriði kosninganna í vor. Flokkarnir hafa unnið vel saman, sýnt samstöðu og hvergi borið skugga á samstarfið. Það er því ekki óeðlilegt að þeir ræði saman fái þeir stuðning til þess í kosningunum. Það verður kosið um hvort Reykjavík er á réttri leið,” segir Dagur, inntur eftir því hvort hans fyrsta val yrði að halda áfram að starfa í sama meirihluta eftir sveitarstjórnarkosningar í maí, fái flokkarnir umboð til.

„Það verður kosið um hvort Reykjavík er á réttri leið"

Hann segir mörgum spurningum þó enn ósvarað hvað varðar mannval og stefnu hinna flokkanna.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið í það skína að hann sé með Framsóknarflokkinn í vasanum og að innkoma Framsóknarflokksins í borgarstjórn sé lykillinn að því að Sjálfstæðisflokkurinn komist í meirihluta. 

Enginn hefur mótmælt þessu úr röðum Framsóknarflokksins, né tekið undir, því Framsóknarflokkurinn hefur ekki stillt upp framboðslista. Það er því mörgum spurningum ósvarað á þessu stigi og margt í framboðsmálum skýrist hugsanlega ekki fyrr en undir páska,” segir Dagur.

Að hans mati hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið samstíga Miðflokknum í flestu á kjörtímabilinu.

„Og margt bendir til þess að flestir frambjóðendur flokksins verði á svipuðum slóðum. Flokkurinn er hins vegar mjög klofinn í afstöðu sinni til lykilmála og því verður fróðlegt að sjá hvernig frambjóðendahópurinn mun vinna úr því og hverjir veljist þar í efstu sæti.”

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður borgarráðs. Hún gefur kost á sér til að leiða lista Viðreisnar í prófkjöri flokksins sem fram fer í næsta mánuði. Er það í fyrsta sinn sem Viðreisn heldur prófkjör.

Viðreisn vill halda öllum kostum opnum

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í borginni segir flokkinn ganga opinn til kosninga.

„Þetta kjörtímabil hef ég leitt starf Viðreisnar í borginni og lagt mig fram um að skoða ólík sjónarmið og að komast að farsælum lausnum. Framtíðin leynist í samvinnu margra flokka og við verðum að geta unnið þvert á,” segir hún en ítrekar þó að samstarf núverandi meirihluta hafi gengið vel og verið farsælt og gott.

„Ef meirihlutinn í borginni myndi halda þá er það pólitísk venja að tala saman en við munum halda öllum kostum opnum. Það er enda enn langt í kosningar og það á eftir að skýrast hvernig mannval og málefnin leggjast.”

„Ef meirihlutinn í borginni myndi halda þá er það pólitísk venja að tala saman en við munum halda öllum kostum opnum. Það er enda enn langt í kosningar og það á eftir að skýrast hvernig mannval og málefnin leggjast."

Píratar vilja vinna með fólki sem kunna að eiga í uppbyggilegu samstarfi

Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata í borginni segir meirihlutasamstarfið hafa gengið mjög vel. „Við erum samstíga hópur og höfum náð miklum árangri,” segir hún.

Píratar séu opnir fyrir því að vinna með öllum þeim sem róa í átt að sömu markmiðum um réttlátt og grænt velferðarsamfélag. 

„Og þeim sem bera virðingu fyrir samstarfsflokkum og kunna að eiga í uppbyggilegu samstarfi borgarbúum til heilla,” útskýrir hún en tekur fram að ein af grunnstoðum hugsjóna Pírata sé þar að auki baráttan gegn spillingu. 

„Við erum samstíga hópur og höfum náð miklum árangri”

„Því verða samstarfsflokkar að vera trúverðugir í því samhengi,” segir Dóra sem hefur verið gjörn á að hnýta í minnihlutaflokkana og sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, fyrir meinta spillingu.

Allir flokkar meirihlutans í Reykjavík munu efna til prófkjörs við val á lista, þótt sumir flokkar notist við hugtakið forval. Líf Magneudóttir er oddviti Vinstri grænna og eini oddvitinn í meirihlutasamstarfinu sem þegar hefur fengið tvo mótframboð um fyrsta sætið á lista sínum. Kosið verður í forvali flokksins dagana 2.-5. mars.

Eðlilegt að spjalla við þá sem aðhyllast sömu skoðanir og VG

Líf segist vilja halda áfram á sömu braut og verið hefur. „Það er auðvitað kurteisi og sjálfsagt og eðlilegt að spjalla við þau sem aðhyllast sömu skoðanir og við í Vinstri grænum,” segir Líf sem segist mjög ánægð með hversu miklu flokkurinn fékk framgengt í sáttmála meirihlutans, en hún er eini borgarfulltrúi flokksins sem hlaut kosningu.

„Það er auðvitað kurteisi og sjálfsagt og eðlilegt að spjalla við þau sem aðhyllast sömu skoðanir og við í Vinstri grænum"

„Ég mun krefjast enn frekari jöfnuðar og sjálfbærni en nú er. Þau sem vilja halda áfram á sömu braut geta spjallað við okkur í VG eftir kosningar. Sjáum hvað verður,” segir Líf að lokum.


Tengdar fréttir

Baráttan um borgina að hefjast

Fyrirséð er að hart verður barist um hylli kjósenda í komandi borgarstjórnarkosningum sem fram fara í maí á næsta ári. Áður en til kosninganna kemur, þurfa flokkarnir ýmist að stilla upp á lista eða fara í prófkjör og því ekki seinna vænna að flokkarnir fari að velja sér forystufólk. Fjölmörg ný nöfn eru nefnd til skjalanna í þeim efnum og sum hver kunnugleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×