Enski boltinn

Bikar­meistarar Leicester úr leik eftir af­hroð í Skíris­skógi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joe Worrall að stanga knöttinn í netið.
Joe Worrall að stanga knöttinn í netið. Alex Livesey/Getty Images

Nottingham Forest frá Skírisskógi gerði sér lítið fyrir og pakkaði bikarmeisturum Leicester City saman í 32-liða úrslitum FA-bikarsins. Lokatölur í Nottingham 4-1 heimamönnum í vil.

Nottingham Forest voru sýnd veiði en ekki gefin fyrir bikarmeistara Leicester eftir að hafa slegið Arsenal út í 3. umferð FA-bikarsins. Þó Brendan Rodgers, þjálfari Leicester, hafi gert nokkrar breytingar á byrjunarliði sínu óraði engum fyrir hvernig leikur dagsins myndi þróast. 

Tvö mörk með stuttu millibili um miðbik fyrri hálfleiks lögðu grunninn að frábærum sigri Forest. Hinn danski Philip Zinckernagel kom heimamönnum yfir eftir að boltinn barst til hans eftir skalla Keinan Davis á 23. mínútu leiksins. 

Örskömmu síðar var staðan orðin 2-0. Heimamenn unnu boltann strax eftir miðju bikarmeistaranna og allt í einu var Brennan Johnson óvænt einn gegn Danny Ward, markverði Leicester, hann skoraði af öryggi og stuðningsfólk heimamanan ærðist af fögnuði.

Ekki löngu síðar, eða á 32. mínútu leiksins, var staðan orðin 3-0. Að þessu sinni var það Joe Worrall sem var réttur maður á réttum stað eftir hornspyrnu James Garner. 

Skömmu fyrir hálfleik fengu gestirnir líflínu eftir að Brice Samba, markvörður Forest, fór í skógarhlaup og Kelechi Iheanacho náði að renna boltanum í netið, staðan 3-1 í hálfleik.

Sú litla von sem Leicester hafði hvarf eftir klukkutíma leik. Djed Spence skoraði þá eftir frábæra stungusendingu Zinckernagel og staðan orðin 4-1. 

Reyndust það lokatölur leiksins og Nottingham Forest komið áfram í 16-liða úrslit FA-bikarsins þar sem liðið mætir Huddersfield Town.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×