Innlent

Skilur ekki hvers vegna Þór­ólfur og Willum taka menningu fram yfir há­­skóla­­starf

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Áslaug Arna vill afnema eins metra regluna í háskólum strax.
Áslaug Arna vill afnema eins metra regluna í háskólum strax. Vísir/Vilhelm

Óljóst er hvort næstu afléttingar á sóttvarnatakmörkunum verði kynntar eftir ríkisstjórnarfund á morgun eða síðar í vikunni. Ráðherra Sjálfstæðisflokksins kallar eftir því að fjarlægðaregla verði afnumin í háskólum og skilur ekki hvers vegna heilbrigðisráðherra tekur menningarviðburði fram yfir háskólastarf. 

„Ég bind auð­vitað vonir við það að hvorki há­skólar né önnur starf­semi búi við tak­markanir í langan tíma í við­bót. En á meðan svo er er að minnsta kosti lág­mark að há­skólar búi ekki við strangari skil­yrði en menningin,“ segir Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra.

Hún vísar þar til eins metra reglunnar sem heil­brigðis­ráð­herra á­kvað að fella niður á menningar­við­burðum í síðustu viku. Reglan er þó enn í gildi í há­skólum landsins.

Bindur vonir við afléttingar á morgun

Og þetta er Ás­laug síður en svo sátt við og hefur kallað eftir því að heil­brigðis­ráð­herra felli regluna einnig niður í skólum.

„Ég sé alla­vega ekki mál­efna­legar á­stæður fyrir því að há­skólar búi við meiri eða strangari skil­yrði en til dæmis menningin og bind miklar vonir við það að úr þessu verði bætt. Það hefur verið sagt að þetta eigi að skoða þannig ég vona inni­lega að það gerist ekki seinna en á morgun,“ segir Ás­laug Arna.

Það verði að gæta að samræmingu í sóttvaratakmörkunum. Það sé enginn munur á því að sitja saman inni í skólastofu heldur en inni í sal á tónleikum eða í leikhúsi.

Heil­brigðis­ráð­herra hefur boðað af­léttingar í þessari viku, tveimur vikum fyrr en aflléttingar­á­ætlun gerir ráð fyrir.

Þó er ó­víst hvort þær af­léttingar verði kynntar strax eftir ríkis­stjórnar­fund á morgun eða síðar í vikunni.

Hvorki heil­brigðis­ráð­herra né sótt­varna­læknir veittu frétta­stofu við­tal fyrir há­degis­fréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×