Enski boltinn

Er alveg sama um klæða­burð leik­manna svo lengi sem þeir leggi sig alla fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dele Alli, leikmaður Everton.
Dele Alli, leikmaður Everton. Chris Brunskill/Getty Images

Frank Lampard, nýráðinn þjálfari Everton, gaf lítið fyrir þá fullyrðingu að Dele Alli, ein nýjasta viðbót Everton-liðsins, hafi verið eins og umrenningur til fara er hann var kynntur fyrir stuðningsfólki félagsins.

Dele Alli gekk í raðir enska knattspyrnufélagsins Everton frá Tottenham Hotspur á gluggadeginum fyrir viku síðan. Síðasta laugardag vann Everton sannfærandi sigur á Brentford í FA-bikarnum en í hálfleik leiksins var Dele kynntur fyrir stuðningsfólki Everton.

Glenn Hoddle, fyrrverandi leikmaður sem og þjálfari enska landsliðsins, var ekki alltof hrifinn af klæðaburði Dele en Lampard gæti vart verið meira sama.

„Mér gæti ekki verið meira sama hvernig bíl hann keyrir eða hvaða fötum hann klæðist. Þetta snýst um að leggja sig allan fram og reyna bæta sig á hverjum degi ásamt því að sýna félaginu og liðsfélögunum virðingu,“ sagði þjálfarinn.

„Tímarnir breytast og mennirnir með. Svo lengi sem leikmenn standa sig á vellinum þá er ég ánægður. Ég reyni ekki að hafa áhrif á persónuleika hvers og eins leikmanns. Ef leikmenn eru með rétt hugarfar þegar kemur að fótbolta þá hef ég engar áhyggjur,“ sagði Lampard að endingu.

Alli gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Everton þegar liðið sækir Newcastle United heim annað kvöld.

Everton vann Brentford, 4-1, á laugardaginn í fyrsta leik sínum undir stjórn Franks Lampard. Yerry Mina, Richarlison, Mason Holgate og Andros Townsend skoruðu mörk Bítlaborgarliðsins.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×